Friday, April 16, 2010

Færslupöntun

Þegar var komið að því að velja valfög á seinasta ári var ég ekki alveg viss um hvað ég vildi læra en kvikmyndagerð virtist vera einn besti kosturinn. Ég hef alltaf haft gaman af kvikmyndum og öllu því tengdu og því tilvalið að læra meira um það. Ég hafði líka bara heyrt góða hluti um þetta námskeið og margir sem mæltu með því. Þegar þrír af sex tímum á viku fara í það að horfa á myndir þá hljómaði kvikmyndagerð sem mjög góður kostur. Ég hafði ekkert svo miklar væntingar til áfangans í fyrstu og vissi ekki alveg við hverju mátti búast en satt að segja hélt ég að námskeiðið væri töluvert öðruvísi en kom í ljós. Ég vonaðist til að læra meira um hvaða vinna fer í það að búa til stuttmyndir og hef ég óneitanlega lært mikið um það í vetur. Ég bjóst samt ekki við því að svo mikill hluti kennslunnar færi í glærushow og hélt að tímarnir yrðu meira verklegir þar sem nemendurnir tóku meiri þátt í kennslunni, en á sama tíma kanski soldið erfitt að kenna þetta efni öðruvísi en með powerpoint-glærum. Mér finnst líka áherslunar á námsefninu vera aðeins öðruvísi en ég hélt og t.d. kanski fullmikill tími fara í gerð handrita og finnst mér satt að segja ég ekki hafa lært neitt rosa mikið af þeirri kennslu. Ég hélt að áherslurnar á kvikmyndasögunni væru meiri og kanski meiri umfjöllun um íslenska kvikmyndagerð og frægar myndir sem íslendingar hafa gert. Svo fannst mér líka frekar lítið kennt um hinar ýmsu starfsgreinar innan kvikmyndagerðar svo sem klippara og tökulið og þess háttar en mér fannst eins og eina áherslan væri á leikstjórum. Ég hef t.d. ekki mikinn áhuga á að verða leikstjóri en það er svo mikið meira sem liggur að baki við gerð kvikmynda að ég myndi vilja fræðast meira um hinar starfsgreinarnar. Ég heyrði einhverstaðar einhvern tala um að fá aðra einstaklinga en leikstjóra til að koma og vera með kynningu um starfsvið sitt svo sem klipparar og myndatökumenn og finnst mér það mjög góð hugmynd. Ég bjóst líka við að við myndum gera aðeins fleiri stuttmyndir en ég skil að það getur verði erfitt með aðeins eina tökuvél og eina klippitölvu og tíminn af skornum skammti.

  • hvað tókst vel og hvað mætti betur fara:
Mér fannst margt mjög gott við áfangann og frábært að fá að kynnast aðeins gömlum myndum á borð við The General og Notorious, en ég hafði ekki séð margar slíkar myndir áður og vöktu þær áhuga hjá mér á slíkum myndum. RIFF-hátíðin var líka einn af hápunktum námskeiðisins og fannst mér hún mjög vel heppnuð. Fyrirlestrarnir sem við héldum voru líka mjög áhugaverðir og um skemmtileg efni og fékk mig til að fræðast meira um hluti sem ég hafði ekki mikið séð áður eins og t.d. Hayao Miyazaki og animemyndir.
Hins vegar fannst mér sumt vera mun síðra og of mikið af glærum og tímum þar sem maður átti hreinlega mjög erfitt að einbeita sér. Annað sem mér finnst líka frekar slappt voru ferðirnar sem við fórum á í bío, en mér finnst ekki að þær ættu að vera skyldumæting. Margar af myndunum hafði ég engan áhuga á sjá og hvað þá borga mig inn á í bío, en ég skil samt mikilvægi þess að við hefðum séð þær fyrir leikstjóraheimsóknirnar. Mér fannst líka maður lenda í frekar miklum tímaþröng fyrir lokaverkefnið og bitnaði það að hluta á gæði myndanna. Aðeins meira skipulag og strangari skilafrestir á verkefnunum eru bara til hins betra. Þó svo að ég viti að tímaþrönginni er að mestu leyti mér sjálfum að kenna þá fannst mér stundum óljóst hvenær átti að vera búið að skila af sér verkefnum. Kanski aðeins skýrari fyrirmæli myndu létta fyrir nemendum.

Þegar það eru svo margir nemendur í áfanganum og aðeins ein myndavél er auðvitað mjög erfitt að skipuleggja tíma fyrir hvern hóp fyrir sig en mér þætti það frábært ef hægt væri að troða einni mynd í viðbót inn á önnina. Skilafrestur fyrir hvern hóp fyrir sig væri kanski full strangt og margir ósáttir við það en ég held að það gæti verið eina leiðin til að ná að gera fleiri myndir á hverri önn. Kanski fær hópur myndavélina í nokkra daga og þarf síðan að skila þér myndinni fullgerðri viku seinna eða eitthvað slíkt. Mér finnst samt lang skemmtilegast að sjá allar myndirnar í einu en þá gætir þú kanski bara geymt myndirnar sem eru kláraðar og síðan sýnt þær allar, eða hluta þeirra á fyrirfram ákveðnum sýningardegi.
Ég held að það geri það ekkert mikið einfaldara ef þú myndir taka við myndavélinni og næsti hópur síðan fái hana frá þér. Mér fannst það ekkert verra að fá hana frá hópnum á undan. Skiladagar á suttmyndunum mættu samt alveg vera fyrr. Mér finnst hiklaust að þú ættir að setja skildag á heimildamyndina fyrr og sama sinnis lokaverkefnið. Ég veit að margir voru að hugsa um mikilvægari hluti en að gera stuttmynd þegar stúdentsprófin fóru að nálgast.
Ég held ekki að stig fyrir komment muni hvetja fólk til að vera mikið virkara en mér finnst sama sinnis að bloggið sé of stór hluti af námskeiðinu. Mér finnst fínt að blogga af og til um myndir sem ég hef gaman af en þegar maður þarf að kreista fram 80 stig á önn verður þetta allt frekar þreytt og leiðinlegt. Hægt væri kanski að koma upp öðruvísi stigakerfi þar sem 10 stig væri ekki það mesta sem hægt væri að fá því mér finnst mjög mikið misræmi vera í stigagjöfinni, þar sem hægt er að fá of lítið af stigum fyrir löng blogg og of mikið af stigum fyrir innihaldslítil og léleg blogg.

Í heildina litið er ég nokkuð ánægður með námskeiðið en þó margt sem hægt er að bæta. Mæli samt hiklaust með þessu vali fyrir þá sem hafa áhuga á kvikmyndagerð en ég lærði margt á þessu ári um hina ýmsu hluti tengda kvikmyndum.

Thursday, April 15, 2010

The Bucket List (2007)


The Bucket List
The Bucket List er mynd frá árinu 2007 og fjallar um tvo eldri menn sem báðir greinast með krabbamein og fá að vita að þeir hafa aðeins fáeina mánuði eða vikur eftir. Milljónamæringurinn Edward Cole (Nicholson) fær þá hugmynd að þeir skuli leggja af stað í ferðalag og upplifa alla þá hluti sem þeir hafa viljað gera alla sína ævi. Hinn maðurinn, Carter Chambers (Freeman), er hikandi í fyrstu en ákveður síðan að hann hefur engu að tapa og þeir leggja af stað í ferð til að uppfylla allar þær óskir sem þeir hafa skrifað niður á lista sem þeir kalla The Bucket List.

The Bucket List er virkilega góð og falleg mynd og þó hún hafi kanski ekki fengið neitt rosa mikla athygli þá er eitthvað við hana sem höfðar virkilega til mín. Leikurinn í henni er hreint út sagt frábær en þeir Jack Nicholson og Morgan Freeman eru tveir af mínum uppáhalds leikurum og finnst mér þeir virkilega frábærir saman. Jack Nicholson leikur milljónamæringin Edward Cole sem hefur gert það gott með fyrirtæki sínu sem rekur einkaspítala og hann á m.a. spítalann sem þeir tveir dvelja á. Morgan Freeman leikur hins vegar svartan bifvélavirkja sem fórnaði öllu fyrir fjölskyldu sína og fór að vinna ungur til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Carter Chambers sem Freeman leikur er hins vegar gríðarlega klár og elskulegur eiginmaður en Edward Cole er hins vegar algjör andstæða við hann og er snobbaður milljónamæringur sem þykir ekki vænt um neinn. Við fyrstu sýn virðist sem þeir tveir eiga ekki mikið sameiginlegt en eftir að hafa umgengst hvorn annan í nokkurn tíma fer að skapast mikil vinátta meðal þeirra. Morgan Freeman er einnig sögumaður í myndinni og segir söguna í raun frá sínu sjónarhorni og hvernig hann kynntist þessum merkilega kalli sem Edward Cole er.
Ég veit ekki alveg hvaða hlutur það er sem heillar mig svo við þessa mynd en mér finnst hún alltaf jafn skemmtileg í hvert skipti sem ég horfi á hana. Það er eitthvað við það hvernig sagan er sögð sem virkilega nær til mín og finnst mér hún vera ein af mínum uppáhalds myndum. Karakterarnir í henni eru eitthvað svo heillandi og söguþráðurinn á sama tíma svo góður. Tónlistin er líka mjög góð og skapar hún einmitt rétta stemmningu fyrir svona mynd. Þegar tveimur af helstu leikurum seinustu ára er skellt saman í mynd sem byggist að mestu upp af góðum samtölum og vel sagðri sögu þá er afurðin virkilega skemmtileg og falleg mynd. Ég mæli því hiklaust með The Bucket List fyrir alla þá sem vilja horfa á góða sögu og frábæra leikara sýna allar sínar bestu hliðar.

Hér er síðan trailerinn:

The Blind Side (2009)


The Blind Side
The Blind Side er mynd frá árinu 2009 sem fjallar um sögu Michael Oher sem átti mjög erfiðan uppvöxt þar sem mamma hans var eiturlyfjafíkill og hann færðist á milli fósturheimila. Eftir að hafa fengið inngöngu í menntaskóla komst hann í kynni við Leigh Ann Tuohy og fjölskyldu hennar sem tóku hann að sér og leyfðu honum að vera hjá sér. Myndin segir í raun frá sambandi þeirra Michaels og Tuohy fjölskyldunnar og hvernig líf þeirra beggja breyttist til hins betra. Eftir mikla vinnu og erfiði fór líf Michaels að breytast og endaði hann að lokum sem leikmaður Baltimore Ravens í NFL deildinni í amerískum fótbolta.

The Blind Side er falleg mynd sem er byggð á sannri sögu. Ákveðið var að gera mynd í kjölfar samnefndar bókar sem kom út árið 2009 og er skrifuð af Michael Lewis. Handritið að myndinni var skrifað af John Lee Hancock sem leikstýrði henni líka. Sagan af Michael Oher er mjög einstök og þar sem myndin er byggð á raunverulegri ævi hans fær hún ákveðna dýpt og er ekki einhver íþróttasaga sem er skrifuð af handritshöfundum sem hafa horft of mikið á íþróttir og þannig fengið hugmynd að handriti. Mér finnst hún gríðarlega vel skrifuð og segir sögu hans á mjög góðan hátt þar sem maður finnur virkilega til með honum á köflum. Þó svo að handritið er ekki að öllu leyti skrifað eins og gerðist í raun og veru þá finnst mér það ekkert koma að sök í myndinni. Kanski fremur ólíklegt að vellauðug suðurríkjafjölskylda skyldi ákveða að bjóða stórum svörtum strák inn á heimili sitt þegar þau sjá hann labba einan úti í rigningunni. Ég hef reyndar séð viðtal við alvöru fjölskylduna og þau tóku hann ekki inn til sín fyrstu nóttina eins og gerist í myndinni, heldur skutluðu þau honum á strætóstöð svo hann gæti komist heim fljótar. Svona smáatriði er oft breytt þegar verið að yfirfæra sannar sögur á afþreyingarform og finnst mér það ekkert gera myndina verri.

Hér er stutt mynd um söguna sem myndin er byggð á og viðtöl við Michael og Tuohy fjölskylduna:




Leikurinn í myndinni er hreint út sagt frábær. Sandra Bullock sýnir hér afbragðsleik og þó ég hafi ekki verið mikill aðdáandi hennar áður en ég sá The Blind Side finnst mér ég bera meiri virðingu fyrir hana sem leikkonu eftir frammistöðu hennar í myndinni. Strákurinn sem leikur Michael Oher er líka mjög góður. Hann heitir Quinton Aaron og hafði fyrir myndina nánast ekki leikið í neinu en skilar frábærri frammistöðu í myndinni. Restin af Tuohy fjölskyldunni er líka mjög vel leikinn en kansi eini leikarinn sem mér fannst ekki standa fyrir sínu var þjálfari hans sem mér fannst frekar slakur. Sandra Bullock hlaut líka óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni og er það fyrsti óskarinn sem hún hlýtur og án efa verðskuldaður. Myndin var líka tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta mynd.
Mér fannst myndin í heild sinni mjög góð og vel heppnuð. Sagan er kanski soldið klisjukennd á köflum en samt mjög vel sögð. Í lok myndarinnar fær maður líka að sjá Michael Oher og Tuohy fjölskylduna í raunveruleikanum og finnst mér það mjög flott. Góður leikur, falleg saga og vel gerð mynd gerir The Blind Side að afbragðsafþreyingarefni fyrir alla. Mæli ég því hiklaust með henni.

Hér er síðan trailerinn:

Wednesday, April 14, 2010

The Departed (2006)



The Departed
The Departed er mynd leikstjórans Martin Scorsese frá árinu 2006. Lögreglan í Massachusets er í hörðu stríði við glæpasamtök í Boston og fær til liðs við sér Billy Costigan (Di Caprio) sem þykist vera glæpamaður og kemur sér inn í innsta hring mafíunnar, sem stjórnuð er af Frank Costello (Nicholson). Á sama tíma hefur Costello látið Colin Sullivan (Damon) klára lögregluskóla og hann fer hratt upp metorðastiga löreglunnar en á sama tíma vinnur hann leynilega fyrir Costello. Þegar grunur liggur á um svikara bæði í lögreglunni og mafíunni eru þeir báðir í hættu um að verða uppljóstraðir. Þeir verða því að finna út hver svikarinn í hinum hópnum er til að geta bjargað sjálfum sér.

The Departed er mjög góð mynd sem skartar fullt af frábærum leikurum. Þar má helst nefna Leonardo Di Caprio sem stendur sig með prýði en það gerir Matt Damon líka, þó finnst mér Jack Nicholson virkilega skara framúr. Hann er einn af mínum uppáhalds leikurum og mér finnst hann skila frábærri frammistöðu sem sýnir virkilega hversu hæfileikaríkur leikari hann er. Mark Wahlberg er líka mjög góður í henni og var m.a. tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik í aukahlutverki. Handritið er gott og sagan mjög skemmtileg og heldur manni við efnið. Myndin er endurgerð af asísku myndinni Mou gaan dou (e. Infernal Affairs) sem kom út árið 2002 og var handritið því í raun endurgerð af upprunalega handritinu. Þrátt fyrir það hlaut William Monahan óskarsverðlaun fyrir handritið (Best Writing, Adapted Screenplay) og sýnir það hversu vel honum tókst. Myndatakan og allt því tengt er gott en samt ekkert sem gerir hana neitt sérstaklega eftirtektarverða. Martin Scorsese stendur sig frábærlega og finnst mér The Departed vera ein af hans bestu myndum. Hún hlaut 4 óskarsverðlaun árið 2007 og meðal þeirra var óskar fyrir bestu leikstjórn. Myndin naut mikilla vinsælda á sínum tíma og er m.a. í sæti nr. 50 á topp 250 lista imdb.com.

Mér fannst the Departed vera mjög góð mynd í nánast alla staði. Hún var skemmtileg, vel leikin, vel skrifuð og hélt manni við efnið alla myndina. Mæli eindregið með henni fyrir alla þá sem ekki hafa séð hana því hún er fínasta skemmtun og í heildina litið mjög góð mynd.

Hér er síðan trailerinn:

Monday, April 12, 2010

Band of Brothers (2001)

Band of Brothers
Band of Brothers er þáttaröð sem gerð var af Tom Hanks og Steven Spielberg árið 2001 og fjallar um hóp bandarískra fallhlífahermanna í seinni heimstyrjöldinni. Í þáttaröðinni fáum við að fylgja þeim frá herþjálfun og för þeirra í gegnum stríðið allt frá innrásinni í Normandy til Arnarhreiðri Hitlers í Austurríki.
Þáttaröðin er í tíu hlutum en hún var gerð í kjölfar myndarinnar Saving Private Ryan frá árinu 1998. Þar byrjaði samstarf þeirra Tom Hanks og Steven Spielberg og þóttist það takast það vel að þeir ákváðu að vinna aftur saman og varð afurðin Band of Brothers. Band of Brothers líkist Saving Private Ryan að mörgu leiti en þó margt sem skilur myndirnar að. Í Saving Private Ryan fær maður að fylgja litlum flokki hermanna sem fara í herför til að bjarga einum hermanni og gæti söguþráðurinn þótt fremur ólíklegur ef litið er á sögulegar heimildir en það er ekki tilfellið í Band of Brothers. Þar fylgir maður ekki litlum hópi hermanna heldur fær maður að kynnast heilum herflokk af hermönnum þar sem hver maður hefur sína sögu að segja. Mér finnst fyrikomulagið á Band of Brothers henta mun betur til að segja sögu þessara hermanna því maður fær virkilega að kynnast hverjum hermanni fyrir sig og þar sem maður fær að fylgja þeim í gegnum næstumþví 10 klukkutíma af efni finnst manni að maður þekki þá frekar vel í endann. Handritið var skrifað í kjölfar viðtala við hermennina úr herflokknum sem lifðu af stríðið og byrjar hver þáttur á stuttum bútum úr þessum viðtölum. Mér finnst það mjög flott fyrirkomulag og þegar líður á seríuna fer maður að átti sig á hverjir þetta eru í viðtölunum og hvaða persónur í þáttunum þeir eiga að svara til. Þetta gefur þáttunum ákveðna dýpt svo manni líður ekki bara eins og maður sé að fylgjast með einhverju Hollywood handriti heldur líður manni meira eins og maður sé að heyra sögu þessara hermanna í raun. Þrátt fyrir það er auðvitað meirihlutinn af handritinu hreinn uppspuni til að auka á skemmtanagildi þáttana en mér finnst samt þáttaröðin segja sögu þessara hermanna vel. Ég hef líka séð aukaefnið þar sem öll viðtölin eru í fullri lengd og er margt af því sem kemur fram í þáttunum byggt hreinlega á sögum þessara manna. Lokaþátturinn er líka frábær þar sem maður fær að sjá hvað hver og einn af hermönnunum fór að gera að stríði loknu og síðan skipt yfir í viðtölin við mennina þar sem maður fær að sjá þá í raunveruleikanum. Herflokkurinn Easy Company úr 101 Fallhlífahersveitinni í bandaríska hernum var talin ein fremsta hersveitin sem bandaríski herinn hafði upp á að bjóða. Þeir voru nánast alltaf í fremstu víglínu og unnu m.a. það afrek að ná Arnarhreiðri Hitlers í Austurríki. Band of Brothers sýnir hvaða þrekraunir þessir menn fóru í gegnum og þeir spiluðu aðalhlutverk í mörgum af mikilvægustu orustum stríðsins í Evrópu.
Myndatakan og umgjörðin í þáttunum er til fyrirmyndar en þeir eru að mestu teknir upp í gríðarstóru myndveri í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það skapa þeir rétta stemmningu fyrir hvern stað fyrir sig, en herferð Easy Company fór með þá á marga mismunandi staði víðs vegar um Evrópu. Þættirnir sem gerast í Bastogne, skogi sem þá var hluti af Belgíu, eru teknir upp í risastóru flugvélaskýli og settu þeir m.a. heimsmet í notkun á gervisnjó og sýnir það m.a. að engu var sparað við gerð þáttanna. Allt gervi og allar tæknibrellur eru mjög vel gerðar þó svo að sumar tölvubrellurnar þykja fremur stirðar nú á dögum þá voru þær til fyrirmyndar á sínum tíma.
Leikurinn í þáttunum er að mínu mati frábær en maður fær að kynnast heilum aragrúa af mismunandi karakterum í gegnum gang þáttaraðarinnar og finnst mér þeir nánast allir standa fyrir sínu. Flestir af leikurunum voru fremur óþekktir á sínum tíma og eru í raun enn því ég man ekki eftir að hafa séð marga þeirra leika í einhverju öðru, allavega svo gott sem ég man. Damian Lewis sem leikur Richard Winters og er eitt af aðalhlutverkunum hef ég só séð í myndinni Dreamcatcher og þáttunum Life. Auk þess lék David Schimmer lítið hlutverk. Leikstjórar þáttanna eru mismunandi nánast í hverjum einasta þætti en Tom Hanks tók það að sér að leikstýra einum þættinum og fannst mér hann einn af þeim bestu.

Band of Brothers er án efa ein af mínum uppáhalds þáttaröðum og er í raun 10 klukkutíma löng mynd sem sleppir aldrei tökunum. Í lok hvers þáttar langar manni að halda áfram og horfa á næsta þátt og finnst mér eiginlega 10 klukkutímar vera nánast of stuttur tími fyrir svo frábært afþreyingarefni. Mæli hiklaust með Band of Brothers fyrir alla en fyrir þá sem hafa áhuga á WWII þá er þetta sannkölluð perla sem má ekki láta fram hjá sér fara.

Hér er síðan trailerinn að þáttunum:

Wednesday, March 31, 2010

Shutter Island (2010)

Shutter Island
Shutter Island er nýjasta mynd Martin Scorsese en hún fjallar um bandaríska lögreglumanninn Teddy Daniels (Di Caprio) sem er fengin til að rannsaka brotthvarf eins fanga úr geðsjúkrafangelsinu Ashcliffe sem staðsett er á Shutter eyju nálægt Boston. Hann hefur reynt að komast á eyjunni vegna persónulegra ástæðna og er að leita að manni sem hann heldur að hafi drepið konu sína. Eftir að hafa verið fastur á eyjunni í nokkurn tíma vegna óveðurs fer Teddy að efast um að koma hans til eyjunnar hafi verið hrein tilviljun. Hann fer að halda að læknarnir sem stjórna geðsjúkrahúsinu (m.a. Ben Kingsley) hafi viljað fá hann þangað til þess að gera tilraunir á honum. Mikil ringulreið er á eyjunni vegna óveðursins en allt bendir til þess að eitthvað sé galið og að Teddy er ekki óhultur. Hann fer því að efast um allt sem honum hafi verið sagt og hættir að treysta á minningar sínar, félaga og hugsar jafnvel um það hvort hann hafi misst vitið.

Mér fannst Shutter Island mjög góð mynd. Hún er prýdd fjöldann allan af góðum leikurum og ber þar hæst að nefna Leonardo Di Caprio sem stendur sig með eindæmum sem lögreglumaðurinn Teddy Daniels. Aðrir leikarar eru líka frábærir og man ég ekki eftir neinum leikara sem skilaði ekki góðri frammistöðu í myndinni. Ben Kingsley er að vanda frábær en hann leikur yfirlæknirinn á spítalanum, Dr. Cawley. Leikmyndin er líka mjög flott en fangelsi sem staðsett er á lítilli eyju sem er full af geðsjúklingum skapar rétta stemmningu fyrir spennumynd af þessari gerð. Margar senur í myndinni héldu manni virkilega á tánnum og var hún því fínasta spennumynd. Handritið að myndinni er byggt á skáldsögu Dennis Lehane en mér finnst handritið mjög gott og því ljóst að Laeta Kalogridis sem skrifaði handrit myndarinnar hafi staðið sig vel í þeirri vinnu.

Í heildina litið fannst mér Shutter Island vera frábær skemmtun með mjög skemmtilegum twist í endanum sem fékk mann til að líta allt öðrum augum á allt sem maður hefði verið að horfa á seinustu tvo tímana. Ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast þegar ég fór á hana en ég hafði heyrt að hún væri mjög skrýtin og sérstök og er það óneitanlega tilfellið. Shutter Island er mjög spes á köflum þar sem Teddy tekst á við það sem er veruleiki og það sem hann er að ímynda sér. Samt finnst mér þetta ekki verða of mikið og ruglandi heldur þvert á móti finnst mér það bara fleyta áfram söguþræði myndarinnar því stór þáttur í atburðarásinni er þegar Teddy berst við sinn eigin huga og hverju hann getur trúað og ekki trúað. En Shutter Island er fínasta skemmtun og mæli ég með henni fyrir þá sem fíla góðar spennumyndir.

Hér er síðan trailerinn:

Tuesday, March 9, 2010

Memories of Murder (2003)


Memories of Murder
Memories of Murder eða Salunui cheueok eins og hún heitir upprunalega er suður-kóresk mynd eftir leikstjórann Joon-ho Bong frá árinu 2003. Hún fjallar um tvær löggur á landsbygðinni sem rannsaka hroðaleg morð á ungum konum. Aðferðir þeirra eru vægast sagt óhefbundnar en þeir pýnta og nota ofbeldi til þess að yfirheyra grunaða. Þeim til aðstoðar kemur svo lögreglufulltrúi frá stórborginni en hann telur að morðin á ungu stulkunum séu tengd og að raðmorðingi sé á ferðinni. Þegar fleiri konur finnast myrtar með svipuðum aðferðum og þær fyrri byrja þeir að finna vísbendingar sem munu leiða þá til morðingjans.

Mér fannast Memories of Murder vera ágæt mynd. Ekkert sérstök en mér fannst margt skemmtilegt við hana. Mér finnst oft gaman af því að sjá löggumyndir frá öðrum stöðum en Hollywood og mér fannast Memories of Murder hafa sinn eigin blæ af slíkum myndum. Mér finnst leikstjóranum skila ágætis mynd en mér finnst hún samt ekkert framúrskarandi. Leikurinn er ágætur en í heildina litið fannst mér hún svolítið langdregin á köflum. Það er alltaf gaman að sjá myndir frá Asíu en mér fannst Memories of Murder ekkert sérstök. Fín skemmtun á köflum en s.s. ekkert sérstök.

Hér er síðan trailerinn:

Sunday, February 28, 2010

Spirited Away (2001)


Spirited Away
Spirited Away (j. Sen to Chihiro no kamikakushi) er eitt af meistaraverkum japanska leikstjórans Hayao Miyazaki. Hún fjallar um ungu stúlkuna Chihiro sem er á leiðinni í nýja húsið sitt ásamt foreldrum sínum þegar fjölskyldan villist inn á hvað virðist vera gamall skemmtigarður. Þar freistast foreldrar hennar til þess að fá sér bita af matnum sem stendur til boða í auða skemmtigarðinum. Þegar fer að dimma byrja dularfullir andar að koma fram en þegar Chihiro hleypur til að ná í foreldra sína verður henni ljóst að álög sem sett voru á matinn höfðu breytt þeim báðum í feit svín. Síðan hittir Chihiro piltinn Haku sem lofar að hjálpa henni. Hann lætur hana fá vinnu í nærlíggjandi baðhúsi, en þetta baðhús er sérstaklega ætlað öndum. Síðan lofar hann að hjálpa henni að komast burt frá þessum undraheimi, bjarga foreldrum sínum og komast aftur heim en til þess þarf Chihiro að ganga í gegnum margar þrekraunir.

Spirited Away er eins og áður var sagt leikstýrð af Hayao Miyazaki en hún er frá árinu 2001. Hún varð gríðarlega vinsæl um leið og hún kom út en hún sló öll met í Japan hvað varðar miðasölu og má þar t.d. nefna að hún sló Titanic úr fyrsta sætinu. Auk þess hefur Spirited Away unnið fjöldann allan af verðlaunum en hún hlaut óskarsverðlaun fyrir bestu teiknimynd árið 2002. Hún er enn þann dag í dag eina anime myndin sem hefur hlotið óskarsverðlaun þó svo að margar aðrar af myndum hans hafa verið tilnefndar.

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja þegar ég á að fjalla um myndina en mér finnst hún alveg hreint út sagt frábær í nánast alla staði. Hún mjög vel teiknuð líkt og allar myndir Miyazaki en í Spirited Away lætur hann virkilega hugmyndaflugið flakka og afurðin af því er mikilfenglegur og töfrandi heimur fullur af hinum ýmsu verum, allt frá illa lyktandi leðjudraugum til talandi froska. Þó svo að þetta gæti hljómað mjög óraunverulegt dregst maður virkilega inn í þennan töfrandi heim og líður eins og maður sé einn af öndunum sem koma í baðhúsið til þess að hreinsa sál sína.
Tónlistin í myndinni er frábær og gefur henni þennan mikilvæga ævintýralega blæ sem gerir hana svo töfrandi. Hún er samin af Joe Hishaishi en hann semur jafnramt tónlistina fyrir flestar myndir Miyazaki.
Hér sýnir Joe Hishaishi snilld sína og spilar lagið One Summer's Day úr myndinni:


Ég hef reyndar bara séð hana með ensku tali en ég sé fram á að horfa á hana aftur innan skamms og ætla ég þá að prófa hana með upprunalega japanska talinu. Enska talsetningin fannst mér vera mjög góð og alveg til fyrirmyndar þar sem nánast allar persónurnar fá trúverðugar raddir þó svo að ekki sé mikið um fræga leikara sem tala inn á hana.

Spirited Away er hiklaust ein af bestu myndum sem ég hef séð
lengi og varð ég það hrifin af henni að hún á jafnvel heima á topplista yfir uppáhaldsmyndir mínar. Þetta er einmitt svona mynd sem skilur mikið eftir sig og ég hugsaði um hana í marga daga eftir að ég sá hana fyrst. Það var því algjör synd að ég hefði ekki séð hana fyrr en núna fyrir stuttu og mæli ég hiklaust með að allir horfði á þessa frábæru mynd. Hún á án efa eftir að draga ykkur líka inn í töfraheiminn sem Hayao Miyazaki skapaði og hún á ekki eftir að sleppa takinu léttilega.

Hér er hægt að sjá myndina í fullri lengd(léleg gæði):
Spirited Away

Hér er trailerinn að myndinni:

Saturday, February 27, 2010

The Final Destination (2009)



The Final Destination
The Final Destinaion er fjórða myndin í Final Destination seríunni og vona ég innirlega að þetta sé líka sú síðasta. Hún fylgir sama söguþráð og allar hinar myndirnar, en það er að aðalpersónan og vinir hans, sem alltaf er kærasta hans og tveir vinir, þar sem vinirnir rífast og hata hvort annað en eru samt bestu vinir kærustuparsins. Síðan sér einn af þeim sýn sem er líkt og draumur þar sem slys á sér stað og þau deyja öll, ásamt fjölda annarra sem er staddur á sama stað. Síðan vaknar sú persóna og fattar að slysið er ekki búið að eiga sér stað og á eftir að gerast aftur en þá platar hann hópinn til að forða sér og þá fylgir hópur annarra með þeim. Síðan á slysið sér stað þar sem þau áttu öll að deyja samkvæmt áætlun "Dauðans". Nokkru seinna byrjar fólkið sem lifði af að deyja á undarlegan hátt, en þá er dauðinn kominn aftur og er að drepa þau öll í þeirri röð sem þau áttu upprunalega að deyja í slysinu. Aðalpersónan fattar þetta og reynir síðan að hindra að fólkið deyji.

The Final Fantasy er eins og ég sagði alveg eins og hinar myndirnar í seríunni og því verður hún afskaplega fyrirsjáanleg. Til þess að bæta gráu ofan í svart þá er heldur aðalpersónan áfram að fá þessa drauma um hvernig fólk á eftir að deyja og því fær maður að sjá hvernig allir eiga eftir að deyja áður en þau lenda í því. Þetta gerir það að verkum að það er ekki einusinni spennandi þegar maður finnur á sér að einhver eigi eftir að deyja, því maður er búinn að sjá hvernig fyrr í myndinni! Því er ekkert sem kemur á óvart og gerir þessa mynd ennþá verri. Auk þess er alveg hræðileg tölvutækni notuð í myndinni sem er líka á mörgum stöðum algjör óþarfi. Myndin var upprunlega gerð í 3D og átti það að gera hana svaka flotta, en öll þrívíddaratriðin í myndinni eru meira eða minna einhverjir hlutir sem skjótast í myndavélina og gera mann í raun bara meiri pirraðan en maður er fyrir. Svo er svaka flott þrívíddaratriði þar sem aðalpersónurnar eru í bío, að horfa á 3D mynd! Þar fær þrívíddin virkilega að njóta sín. Leikararnir í myndinni eru típískir B-mynda leikarar og standa í raun fyrir sínu sem slíkir. Þó finnst mér öryggisvörðurinn vera alveg með verstu leikurum sem ég hef séð lengi og í raun synd að hann hafi ekki verið látinn deyja aðeins fyrr í myndinni.

Þegar ég horfði á The Final Destination vissi ég alveg við hverju ég mátti búast en í rauninni horfði ég á hana í djóki en ég get alveg viðurkennt að ég hló nokkuð mikið þó svo að hún átti alls ekki að vera gamanmynd. Hún er tilvalin fyrir þá sem vilja heyra lélega "one-liner"-a og of mikið af lélegum tölvubrellum en annars er The Final Destination afskaplega léleg mynd.

Trailer:

Thursday, February 25, 2010

Notorious (1946)



Notorious
Ég missti því miður af tímanum þegar við horfðum á Notorious í skólanum en í staðinn gat frænka mín lánað mér myndina og horfði á hana fyrir stuttu.
Notorious er mynd eftir Alfred Hitchcock frá árinu 1946 og gerist að mestu leyti í Rio de Janeiro. Hún fjallar um Aliciu Huberman (Ingrid Bergmand) en faðir hennar, sem var Þjóðverji, hefði unnið í mörg ár sem njósnari fyrir Þjóðverja í Bandaríkjunum. Hann var síðan tekinn fastur og settur í fangelsi þar sem hann framdi sjálfsmorð. Aliciu finnst að faðir hennar hafi svikið land sitt og skammast sín mjög fyrir hann. Þegar síðan maður að nafni Devlin (Cary Grant) biður Aliciu um að njósna um hóp Nasista í Rio De Janeiro, sér Alicia tækifæri til þess að bæta upp fyrir svik föður síns. Í leiðinni verður Alicia ástfangin af Devlin og allt verður mjög flókið.

Notorius var fínasta skemmtun með mörgum eftirminnilegum atriðum. Ingrid Bergman og Cary Grant eru frábær í henni og sýna bæði afbragðsleik. Veit ekki hversu mikið ég get sagt um þessa mynd en mér fannst hún fínasta skemmtun þó svo að hún var örlítið langdregin á köflum en í heildina litið mjög góð mynd. Ein af uppáhalds myndunum mínum eftir Hitchcock.

Hér er smá klippa af einu atriði með þeim Bergman og Grant:

Howl's Moving Castle (2004)


Howl's Moving Castle
Howl's Moving Castle (j. Hauru no Ugoku Shiro) er anime mynd eftir japanska leikstjórann Hayao Miyazaki. Hún fjallar um ungu stúlkuna Sophie sem fær á sig álög frá gamalli norn og breytist þannig í gamla konu. Hún leggur af stað í för til þess að reyna að finna leið til þess að losna undan álögunum en á leiðinni kemst hún í kynni við galdrakarlinn Howl, sem býr í fremur einkennilegum kastala sem getur hreyft sig. Howl hefur það orðspor að taka hjörtu ungra kvenna og hræðist Sophie hann mjög í fyrstu en síðan kemur í ljós að hann einn gæti hjálpað henni að losna undan álögunum.

Howl's Moving Castle var fyrsta myndin eftir Hayao Miyazaki sem ég sá og er óhætt að segja að ég heillaðist strax. Ég hafði ekki séð margar anime myndir áður, sem er í raun mikil synd því ég hef misst af miklu. Áður en ég sá hana hafði ég bara heyrt góða hluti um myndir Miyazaki og Howl's Moving Castle er vafalaust ein af þeim betri, þó svo að hann hafi pungað út einu meistaraverkinu á fætur öðru. Það er í raun fátt sem hægt er að setja út á myndina og fannst mér hún frábær á nánast alla vegu. Ég sá hana fyrst á japönsku með enskum texta og fannst mér talsetningin þar mjög góð. Síðan sá ég hana aftur með enskum texta og fannst hún ekkert síðri þannig. Ég var mjög sáttur með flestar raddirnar í ensku útgáfunni og Christian Bale stendur sig með prýði sem Howl. Þó fannst mér t.d. nokkrar af upprunalegu röddunum koma betur út svo sem eldpúkinn Calcifer, en í ensku útgáfunni er hann talsettur af Billy Crystal. Mér fannst japanska útgáfan af Calcifer alveg frábær en mér fannst Billy Crystal ekki alveg standa undir væntingum fyrir ensku útgáfuna.
Annars er myndin frábærlega vel teiknuð en við öðru er ekki að búast frá Miyazaki. Epíska landslagið, heillandi borgirnar og frábæru karakterarnir láta mann sogast inn í undraheim Miyazaki. Það sem mér finnst svo heillandi við myndir hans er að hann lætur virkilega hugmyndaflugið flakka. Í myndinni er að finna kastala á fjórum fótum, flugvélar með blakandi fjöðurvængi og kringlótt skip. Þó svo að heimurinn sem hann skapar má virðast skrýtinn dregst maður virkilega inn í hann en finnur á sama tíma einhverskonar hliðstæðu í raunveruleikanum líkt og þetta gæti allt verið að gerast í einhverju landi langt í fjarska.
Annað sem einkennir myndir Miyazaki er frábær tónlist en hún er samin af Joe Hishaishi sem semur alla tónlist fyrir myndirnar hans. Tónlistin er mjög mikilvæg í myndinni til þess að gefa henni þessa fantasíu fílingu sem hún hefur og finnst mér tónlistin stuðla að mörgu leyti að því hversu heillaður ég var af myndinni.

Hér er smá bútur þar sem má heyra aðal lag myndarinnar:


Howl's Moving Castle er frábær mynd sem ég mæli eindregið með, ekki bara fyrir þá sem hafa horft mikið á anime myndir. Hún er góð í nánast alla staði og því frábær skemmtun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Hér er hægt að sjá myndina í fullri lengd: (fremur léleg gæði samt)
How'ls Moving Castle

Hér er svo trailerinn fyrir ensku útgáfuna:

Sunday, January 31, 2010

Braveheart (1995)


Braveheart
Ég ákvað að skrifa smá færslu um eina af mínum uppáhalds myndum, Braveheart. Braveheart er frá árinu 1995 en hún er leikstýrð af Mel Gibson sjálfum sem jafnframt leikur aðalhlutverkið í myndinni. Hún fjallar um skoska bóndann William Wallace og baráttu hans gegn bresku krúnunni á 12 öld. Bretar hafa yfirráð í Skotlandi þar sem hinn grimmi Edward the Longshanks hefur stjórnað með járnhnefa í mörg ár. Bretar hafa kúgað skoska fólkið í áranna rás en þegar kona William Wallace er myrt leggur hann af stað í herför gegn bresku krúnunni og berst fyrir frjálsu Skotlandi.

Myndin er að hluta til byggð á sönnum atburðum en í raun er söguþráðurinn að mörgu leiti hreinn uppspuni. William Wallace var að vísu til í alvöru og er sannkölluð þjóðarhetja í Skotlandi og margir af stóru bardögunum sem fóru fram í myndinni áttu sér stað í raunveruleikanum. Þó er margt sem ég stórefa að hafi gerst svo sem þegar skotarnir lyfta upp skotapilsunum sínum þegar örvahrina er í þann mund að lenda á berum bossunum þeirra.

Mel Gibson leikstýrir, eins og áður hefur verið sagt, myndinni sjálfur og mér finnst hann skila frábærri mynd sem hefur skipað sig í sess sem einni af betri stórmyndum seinustu aldar. Hann stendur sig líka frábærlega í hlutverki sínu sem William Wallace og hann hefði eflaust fengið mig til þess að lyfta upp skotapilsinu mínu ef ég væri uppi á þessum tíma. Eitt það sem mér finnst hvað best við Braveheart er hve lítið er af tölvugerðum tæknibrellum í henni. Brellurnar verða því aldrei gamlar og stirðar þegar maður horfir á hana aftur mörgum árum seinna. Myndin er gerð árið 1995 en það gerist oft þegar leikstjórar nota of mikið af tæknibrellum að myndirnar verða léttilega mjög úreltar. Mér finnst Gibson takast frábærlega að skapa gríðarstóra bardaga með mörg þúsund manna hlaupandi um á engi án þess að eyðileggja atriðin með of mikið af tölvubrellum. Ég sá Braveheart fyrst þegar ég var svona 8 ára og fannst hún þá alveg jafn góð og þegar ég sá hana aftur fyrir nokkrum dögum. Braveheart á því lengi eftir að lifa í minningunni og á eflaust eftir að vera alveg jafn góð eftir 10 ár. Mér finnst þetta vera lykilatriði þegar gerðar eru svona stórmyndir því ég horfði t.d. á fyrstu Harry Potter myndina um daginn en hún var gerð árið 2001 og ég gat varla horft á sum atriði þar sem tölvutæknin var svo hræðilega léleg. Þegar maður er nýkominn af Avatar líta tæknibrellurnar í Harry Potter ekki alveg eins vel út og þegar maður sá hana fyrst.

Tónlistin í myndinni er líka frábær, en það er ekki hægt að gera stórmynd án þess að hafa stórtæka tónlist sem virkilega fær hárin að rísa. Tónlistin er samin af James Horner en hann hefur samið tónlistina við margar aðrar frábærar myndir svo sem Apocalypto, Troy, Apollo 13 og nú síðast samdi hann hinu frábæru tónlist sem er að finna í nýjustu mynd James Cameron, Avatar.

Braveheart er frábær mynd sem ég trúi að flestir hafa séð, en ég mæli eindregið með að þið horfið aftur á hana ef það var langt síðan þið sáuð hana síðast, því Braveheart er einmitt þannig mynd sem er alveg jafn góð nú og þegar hún kom fyrst út fyrir 15 árum.

Hér er síðan smá klippa úr myndinni:

Goodfellas (1990)

Goodfellas

Goodfellas er ekta gangstermynd frá árinu 1990 sem er leikstýrð af hinum bráðsnjalla Martin Scorsese og skartar fjölmörgum afbragðsleikurum. Myndin fjallar um Henry Hill (Ray Liotta) sem ólst upp í kringum ítölsku mafíuna í New York og dregst smám saman út í heim glæpa og afbrota sem einkennir mafíuna á 6. og 7.unda áratug seinustu aldar. Hann tekur þátt í ráni með þeim Jimmy Conway (Robert De Niro) og Tommy De Vito (Joe Pesci) en þeir hafa mjög stórtæk markmið að hækka sig upp metorðastiga mafíunnar. Myndin fjallar í grófum dráttum um hvernig Henry dregst út í baráttu þeirra um aukin völd innan mafíunnar þar sem þeir myrða og kúga mann og annan. Þegar líf Henry sjálfs er í hættu hefst barátta hans um líf og dauða þar sem hann þarf að svíkja og pretta sig úr þeirri klípu sem hann er kominn í.

Goodfellas er frábær mynd sem er byggð á sönnum atburðum. Martin Scorsese vinnur einstaklega vel úr handritinu sem er byggt á bók Nicholas Pileggi "Wise Guy". Þeir Pileggi og Scorsese eiga saman heiðurinn að handritinu en útkoman er alvöru gangstermynd sem sýnir lífið hjá mafíunni á mjög grófan og trúlegan hátt. Myndin fjallar í raun um sama viðfangsefnið og Godfather trílógían þar sem Godfather ruddi brautinu fyrir þessa gerðar myndar. Þó finnst mér Goodfellas líka vera brautryðjandi á sinn hátt með heilan helling af frábærum leikurum sem bregða sér í hlutverk gangstera sem allir hafa sína mafíueiginleika. Margir af leikurunum í Goodfellas halda áfram að gera myndir og þætti í sínum hlutverkum þar sem margir þeirra hafa þetta ekta mafíuútlit og karakter. Flesta karaktera sem þú hefur séð í þáttum eins og Sopranos eru að finna í Goodfellas og sýnir það hversu vel hlutverk þeirra sem mafíósar hafa komið út í myndinni. Ray Liotta sem leikur aðalhlutverkið í myndinni stendur sig frábærlega en Goodfellas er í raunninni eina góða myndin sem þessi maður hefur leikið í. Eftir Goodfellas tók hann að sér fjöldann allan af hræðilegum hlutverkum sem hafa í raun fest hann í sessi sem One Time Wonder leikara. Sem dæmi má nefna að eitt af fyrstu hlutverkum hans eftir Goodfellas var sem Captain Doyle í myndinni Operation Dumbo Drop. Robert De Niro og Joe Pesci þarf ekki að kynna nánar en þeir standa báðir fyrir sínu í myndinni.


Mér finnst Goodfellas ein af betri mafíumyndum sem ég hef séð enda hefur hún fengið fjöldann allann af verðlaunum og viðurkenningum svo sem Óskar fyrir besta leikara í aukahlutverki (Joe Pesci) og sama ár var hún tilnefnd til 5 annarra Óskarsverðlauna. Myndin var hin besta skemmtun og þó svo að hún var í lengri kantinum (146 mín) þá var ég límdur við skjáinn allan tímann. Myndin er alvöru spennumynd sem fjallar um áhugaverðan tíma og því kemur hún út sem frábær mynd í nánast alla staði. Því mæli ég hiklaust með Goodfellas fyrir alla þá sem hafa áhuga á góðum bíómyndum.

Hér er smá sýnishorn úr myndinni, en þetta var jafnframt eitt af uppáhalds atriðunum mínum úr myndinni þar sem Joe Pesci sýnir frábæran leik: