Sunday, January 31, 2010

Goodfellas (1990)

Goodfellas

Goodfellas er ekta gangstermynd frá árinu 1990 sem er leikstýrð af hinum bráðsnjalla Martin Scorsese og skartar fjölmörgum afbragðsleikurum. Myndin fjallar um Henry Hill (Ray Liotta) sem ólst upp í kringum ítölsku mafíuna í New York og dregst smám saman út í heim glæpa og afbrota sem einkennir mafíuna á 6. og 7.unda áratug seinustu aldar. Hann tekur þátt í ráni með þeim Jimmy Conway (Robert De Niro) og Tommy De Vito (Joe Pesci) en þeir hafa mjög stórtæk markmið að hækka sig upp metorðastiga mafíunnar. Myndin fjallar í grófum dráttum um hvernig Henry dregst út í baráttu þeirra um aukin völd innan mafíunnar þar sem þeir myrða og kúga mann og annan. Þegar líf Henry sjálfs er í hættu hefst barátta hans um líf og dauða þar sem hann þarf að svíkja og pretta sig úr þeirri klípu sem hann er kominn í.

Goodfellas er frábær mynd sem er byggð á sönnum atburðum. Martin Scorsese vinnur einstaklega vel úr handritinu sem er byggt á bók Nicholas Pileggi "Wise Guy". Þeir Pileggi og Scorsese eiga saman heiðurinn að handritinu en útkoman er alvöru gangstermynd sem sýnir lífið hjá mafíunni á mjög grófan og trúlegan hátt. Myndin fjallar í raun um sama viðfangsefnið og Godfather trílógían þar sem Godfather ruddi brautinu fyrir þessa gerðar myndar. Þó finnst mér Goodfellas líka vera brautryðjandi á sinn hátt með heilan helling af frábærum leikurum sem bregða sér í hlutverk gangstera sem allir hafa sína mafíueiginleika. Margir af leikurunum í Goodfellas halda áfram að gera myndir og þætti í sínum hlutverkum þar sem margir þeirra hafa þetta ekta mafíuútlit og karakter. Flesta karaktera sem þú hefur séð í þáttum eins og Sopranos eru að finna í Goodfellas og sýnir það hversu vel hlutverk þeirra sem mafíósar hafa komið út í myndinni. Ray Liotta sem leikur aðalhlutverkið í myndinni stendur sig frábærlega en Goodfellas er í raunninni eina góða myndin sem þessi maður hefur leikið í. Eftir Goodfellas tók hann að sér fjöldann allan af hræðilegum hlutverkum sem hafa í raun fest hann í sessi sem One Time Wonder leikara. Sem dæmi má nefna að eitt af fyrstu hlutverkum hans eftir Goodfellas var sem Captain Doyle í myndinni Operation Dumbo Drop. Robert De Niro og Joe Pesci þarf ekki að kynna nánar en þeir standa báðir fyrir sínu í myndinni.


Mér finnst Goodfellas ein af betri mafíumyndum sem ég hef séð enda hefur hún fengið fjöldann allann af verðlaunum og viðurkenningum svo sem Óskar fyrir besta leikara í aukahlutverki (Joe Pesci) og sama ár var hún tilnefnd til 5 annarra Óskarsverðlauna. Myndin var hin besta skemmtun og þó svo að hún var í lengri kantinum (146 mín) þá var ég límdur við skjáinn allan tímann. Myndin er alvöru spennumynd sem fjallar um áhugaverðan tíma og því kemur hún út sem frábær mynd í nánast alla staði. Því mæli ég hiklaust með Goodfellas fyrir alla þá sem hafa áhuga á góðum bíómyndum.

Hér er smá sýnishorn úr myndinni, en þetta var jafnframt eitt af uppáhalds atriðunum mínum úr myndinni þar sem Joe Pesci sýnir frábæran leik:

1 comment: