Braveheart
Ég ákvað að skrifa smá færslu um eina af mínum uppáhalds myndum, Braveheart. Braveheart er frá árinu 1995 en hún er leikstýrð af Mel Gibson sjálfum sem jafnframt leikur aðalhlutverkið í myndinni. Hún fjallar um skoska bóndann William Wallace og baráttu hans gegn bresku krúnunni á 12 öld. Bretar hafa yfirráð í Skotlandi þar sem hinn grimmi Edward the Longshanks hefur stjórnað með járnhnefa í mörg ár. Bretar hafa kúgað skoska fólkið í áranna rás en þegar kona William Wallace er myrt leggur hann af stað í herför gegn bresku krúnunni og berst fyrir frjálsu Skotlandi.
Myndin er að hluta til byggð á sönnum atburðum en í raun er söguþráðurinn að mörgu leiti hreinn uppspuni. William Wallace var að vísu til í alvöru og er sannkölluð þjóðarhetja í Skotlandi og margir af stóru bardögunum sem fóru fram í myndinni áttu sér stað í raunveruleikanum. Þó er margt sem ég stórefa að hafi gerst svo sem þegar skotarnir lyfta upp skotapilsunum sínum þegar örvahrina er í þann mund að lenda á berum bossunum þeirra.
Mel Gibson leikstýrir, eins og áður hefur verið sagt, myndinni sjálfur og mér finnst hann skila frábærri mynd sem hefur skipað sig í sess sem einni af betri stórmyndum seinustu aldar. Hann stendur sig líka frábærlega í hlutverki sínu sem William Wallace og hann hefði eflaust fengið mig til þess að lyfta upp skotapilsinu mínu ef ég væri uppi á þessum tíma. Eitt það sem mér finnst hvað best við Braveheart er hve lítið er af tölvugerðum tæknibrellum í henni. Brellurnar verða því aldrei gamlar og stirðar þegar maður horfir á hana aftur mörgum árum seinna. Myndin er gerð árið 1995 en það gerist oft þegar leikstjórar nota of mikið af tæknibrellum að myndirnar verða léttilega mjög úreltar. Mér finnst Gibson takast frábærlega að skapa gríðarstóra bardaga með mörg þúsund manna hlaupandi um á engi án þess að eyðileggja atriðin með of mikið af tölvubrellum. Ég sá Braveheart fyrst þegar ég var svona 8 ára og fannst hún þá alveg jafn góð og þegar ég sá hana aftur fyrir nokkrum dögum. Braveheart á því lengi eftir að lifa í minningunni og á eflaust eftir að vera alveg jafn góð eftir 10 ár. Mér finnst þetta vera lykilatriði þegar gerðar eru svona stórmyndir því ég horfði t.d. á fyrstu Harry Potter myndina um daginn en hún var gerð árið 2001 og ég gat varla horft á sum atriði þar sem tölvutæknin var svo hræðilega léleg. Þegar maður er nýkominn af Avatar líta tæknibrellurnar í Harry Potter ekki alveg eins vel út og þegar maður sá hana fyrst.
Tónlistin í myndinni er líka frábær, en það er ekki hægt að gera stórmynd án þess að hafa stórtæka tónlist sem virkilega fær hárin að rísa. Tónlistin er samin af James Horner en hann hefur samið tónlistina við margar aðrar frábærar myndir svo sem Apocalypto, Troy, Apollo 13 og nú síðast samdi hann hinu frábæru tónlist sem er að finna í nýjustu mynd James Cameron, Avatar.
Braveheart er frábær mynd sem ég trúi að flestir hafa séð, en ég mæli eindregið með að þið horfið aftur á hana ef það var langt síðan þið sáuð hana síðast, því Braveheart er einmitt þannig mynd sem er alveg jafn góð nú og þegar hún kom fyrst út fyrir 15 árum.
Hér er síðan smá klippa úr myndinni:
Fín færsla. 7 stig.
ReplyDeleteSammála með brellumyndir. Sumar myndir eru meira að segja úreltar um leið og þær koma út...