Wednesday, September 30, 2009

Nord (2009)


Nord (2009)
Nord er norsk gamanmynd sem fjallar um þunglynda skíðagarpinn Jomar og tilraun hans til þess að losna úr því niðurdrepandi ástandi sem hann er fastur í . Þegar hann fréttir að hann gæti verið orðinn faðir leggur hann af stað í ferð norður í leit að barninu sínu. Á leið sinni lendir hann í hinum ýmsu uppákomum og hittir skrautlega karaktera.

Mér fannst Nord vera mjög góð og á köflum virkilega fyndin. Leikarinn í aðalhlutverkinu, Anders Baasmo Christiansen, stendur sig með prýði og túlkar hinn þunglynda skíðavörð á mjög skemmtilegan hátt. Margir af þeim persónum sem hann hittir á leið sinni eru einnig mjög vel leiknar. Þá sérstaklega ungi strákurinn á túrtappafylleríinu og fannst mér fundur þeirra tveggja vera alveg frábær.
Handritið er mjög gott og finnst mér samtölin flæða vel. Myndin hefur marga frábæra karaktera sem hver og einn hafa eitthvað sérstakt upp á að bjóða. Annað sem heillaði mig mikið við þessa mynd var landslagið og voru mörg gríðarlega flott skot af náttúru Noregs. Mörg þeirra minntu mig á Into the Wild (2007) sem mér finnst frábær mynd. Tónlistin spilaði einnig stóran þátt í hversu vel heppnuð þessi atriði voru og fannst mér tónlistin í myndinni yfir höfuð vera mjög góð.

Nord var sýnd á RIFF-kvikmyndahátíðinni og var hún ein af uppáhalds myndunum mínum á hátíðinni. Ég mæli því eindregið með henni og fannst mér hún fínasta skemmtun.

Trailer:

Dead Snow (2009)

Dead Snow (2009)
Dead Snow eða Död Snö eins og hún heitir á móðurmálinu er norsk splattermynd sem fjallar um hóp læknanema sem fara saman í frí upp í kofa í norsku fjöllunum. Þar lenda þau í greipunum á glorsoltnum, þýskum nasista-uppvakningum sem augljóslega gera þeim lífið leitt.

Þegar ég skoðaði dagskránna fyrir RIFF kvikmyndahátíðina vakti Dead Snow strax áhuga minn. Vinur minn hefði séð hana áður og mælt eindregið með henni. Ég vissi ekki alveg við hverju ég mátti búast þegar ég gekk inn á norska zombie-splattermynd og var því ekkert með allt of háar væntingar. Þegar ég heyrði fyrst söguþráðinn velti ég því fyrir mér hvort þetta væri svipuð mynd og Reykjavik Whale Watching Massacre, þar sem leikstjórinn var að taka sín fyrstu skref í splattermyndagerð, handritið einfaldlega lélegt og leikararnir vægast sagt ekki upp á marga fiska.

Sem betur fer var Dead Snow svo gríðarlega mikið betri að það er nánast hlægilegt. Mér fannst Dead Snow frábær. Tæknibrellurnar voru mjög vel heppnaðar og gáfu myndinni ákveðinn karakter. Það voru fullt af mjög góðum hugmyndum sem ég hafði aldrei séð áður og voru frábærglega vel útfærðar. Tæknibrellurnar fóru langt fram úr mínum væntingum og er ánægjulegt að sjá hversu vel norræn mynd gat sýnt fram á svo flottar brellur. Búningarnir og gervið sem uppvakningarnir voru með var einnig vel heppnað þar sem ég gæti vel trúað að nasista-uppvakningur lyti einhvern vegin svona út:

Mér fannst leikararnir bara í meðallagi. Enginn var frábær en engin sýndi heldur fram á lélegan leik. Mér fannst mjög skemmtilegt hvernig hver persóna hafði sinn eigin persónuleika og maður gat þannig haft samúð með þeim þegar nasista-uppvakningarnir slitu þá í tætlur. Allavegana mun meiri samúð en með fólkinu í RWWM.

Handritið var mjög gott. Mikið af fyndnum bröndurum sem virkilega kítluðu hláturtaugarnar og þó svo að ég efaðist um söguþráðinn fannst mér handritið skila skemmtilegri atburðarás.

Dead Snow var mjög góð skemmtun og mæli ég eindregið með henni fyrir þá sem fíla norskt nasista-splatter.

Hér er svo trailerinn fyrir myndina:

Sunday, September 6, 2009

Topplisti

Topplisti

Þegar mér var gefið það verkefni að búa til topplista yfir uppáhalds myndirnar mínar hélt ég í fyrstu að það væri ekkert mál, en þegar ég fór að pæla aðeins betur í þessu varð það mun erfiðara en ég hélt fyrst. Þar sem ég hef séð svo margar góðar myndir í gegnum tíðini er þessi listi alls ekki tæmandi og ég er eflaust að gleyma fullt af myndum sem ættu rétt á að vera nefndar. Hér er stutt umfjöllun um nokkrar af þeim myndum sem hafa haft mest áhrif á mig og ég tel vera í miklu uppáhaldi.

Myndirnar eru ekki í neinni ákveðinni röð.


Saving Private Ryan (1998)
Saving Private Ryan hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér alveg síðan ég var lítill. Hún var fyrsta bannaða myndin sem ég sá og risti hún því djúpt í minninguna. Eftir að hafa séð hana í bío keypti ég mér hana á spólu og er viss um að ég hafi séð hana svona u.þ.b. 50 sinnum eða jafnvel oftar. Tom Hanks er frábær en það á líka við um hina og á Matt Damon einnig hrós skilið fyrir leik sinn sem fallhlífahermaðurinn Ryan.
Saving Private Ryan er án efa ein besta stríðsmynd sem gerð hefur verið að mínu mati og mun hún alltaf vera í miklu uppáhaldi hjá mér.


Gladiator (2000)
Gladiator er gríðarlega flott mynd á alla vegu. Leikstjóri hennar er Ridley Scott og hefur hann gert ótal góðra mynda líkt og Alien, Blade Runner, Hannibal og American Gangster. Að mínu mati er Gladiator besta myndin hans og hef ég alltaf haft augastað á henni. Russel Crowe er hreint út sagt frábær og illmenni myndarinn Joaquin Pheonix sýnir einnig hversu hæfileikaríkur leikari hann er. Hvort sem það eru epískir bardagar eða frábærlega leikin samtöl gerir Ridley Scott Gladiator að einni af mínum uppáhalds myndum og á hún því heima á þessum lista.



Superbad (2007)
Superbad er án efa ein fyndnasta mynd sem ég hef séð og veit ég ekki hversu oft ég hef skellihlegið yfir sömu atriðunum aftur og aftur. Það er furðulegt hvernig ég get ekki fengið leið af þessari mynd. Þetta var ein af fyrstu myndum Seth Rogen og eiginlega myndin sem kom honum á kortið í kvikmyndabransanum. Allir karakterarnir eru frábærir á sinn hátt og má þar sérstaklega nefna þá tvo vini Seth og Evan sem leiknir eru af Jonah Hill og Michael Cera en eftir leik sinn í Superbad hafa þeir báðir leikið í fjölmörgum öðrum góðum myndum. Leikstjóri myndarinn er fremur óþekktur og heitir hann Greg Mottola. Hann hefur ekki leikstýrt mörgum þekktum myndum en seinasta myndin hans var Adventureland sem mér fannst fremur slök frammistaða miðað við Superbad. Superbad á hiklaust heima á topplistanum mínum fyrir þær sakir að hún er frábær gamanmynd og mun örugglega lengi vera fyndnasta mynd sem ég hef séð.


Fight Club (1999)
Alveg síðan ég sá Fight Club í fyrsta skipti hefur hún verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Því miður sá ég hana fyrst fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan og er það allt of seint því ég var búinn að fara á mis á alveg hreint út sagt frábærri mynd, klárlega ein af betri myndum sem gerðar hafa verið. Fight Club er ótrulega svöl og vel gerð mynd með frábæru handriti og ennþá betri leikurum. Að mínu mati fer Brad Pitt með eina af sínum bestu frammistöðum þegar hann túlkar hinn eitursvala Tyler Durden. Ég hef einnig alla tíð haft mikinn áhuga á Edward Norton og hans myndum og er Fight Club klárlega hans besta mynd hingað til. Fight Club er frábær mynd í alla vegu og á því heima ofarlega á topplista mínum, ef ekki í fyrsta sæti.


American History X (1998)
Þegar ég sá American History X í fyrsta sinn varð ég strax dolfallin af vel sagðri sögu leikstjórans og enn og aftur frábærum leik. Edward Norton í hlutverki sínu sem nasistinn Derek Vinyard er örugglega einn af þeim persónum sem hefur haft sem djúpstæðust áhrif á mig eftir að hafa séð mynd. Túlkun Nortons á honum er sláandi og eru mörg eftirminnileg atriði í þessari frábæru mynd, þá sérstaklega þegar Norton sparkar andlitið á einum manninum í gangstéttarkantinn. Ég elska myndir sem hafa þannig áhrif á mann að maður hugsar um þær langt eftir að maður horfði á þær og var American History X ein af þeim myndum. Þessi frábæra mynd leikstjórans Tony Kaye fær því pláss á topplistanum mínum.

Ég ákvað að skrifa aðeins lengri umfjöllun um þessar 5 myndir en þær eru margar fleiri sem gætu komist á þennan lista og eru þessar 5 ekki beint þær myndir sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér heldur fengu þær bara aðeins meiri umfjöllun en hinar.

Aðrar myndir sem einnig myndu eiga heima á þessum lista eru t.d.
-Pulp Fiction (1994)
-Twelve Monkeys (1995)
-Reservoir Dogs (1992)
-The Lord of the Rings (allar 3)
-Donny Darko (2001)
-The Shawshank Redemption (1994)
-Schindler's List (1993)
-Inglorious Basterds (2009)

Því miður hef ég ekki kynnt mér nógu mikið eldri myndir og vonast ég til að breyta því. Næsti topplisti verður vonandi með fleiri eldri myndum og er ég mjög bjartsýnn á að áhugi minn á eldri myndum verði meiri eftir að hafa séð myndir eins og The General og Citizen Kane sem mér líkaði mjög vel við.

Ég er eflaust að gleyma fullt af góðum myndum en þessi listi verður að duga í bili.