Thursday, February 25, 2010

Howl's Moving Castle (2004)


Howl's Moving Castle
Howl's Moving Castle (j. Hauru no Ugoku Shiro) er anime mynd eftir japanska leikstjórann Hayao Miyazaki. Hún fjallar um ungu stúlkuna Sophie sem fær á sig álög frá gamalli norn og breytist þannig í gamla konu. Hún leggur af stað í för til þess að reyna að finna leið til þess að losna undan álögunum en á leiðinni kemst hún í kynni við galdrakarlinn Howl, sem býr í fremur einkennilegum kastala sem getur hreyft sig. Howl hefur það orðspor að taka hjörtu ungra kvenna og hræðist Sophie hann mjög í fyrstu en síðan kemur í ljós að hann einn gæti hjálpað henni að losna undan álögunum.

Howl's Moving Castle var fyrsta myndin eftir Hayao Miyazaki sem ég sá og er óhætt að segja að ég heillaðist strax. Ég hafði ekki séð margar anime myndir áður, sem er í raun mikil synd því ég hef misst af miklu. Áður en ég sá hana hafði ég bara heyrt góða hluti um myndir Miyazaki og Howl's Moving Castle er vafalaust ein af þeim betri, þó svo að hann hafi pungað út einu meistaraverkinu á fætur öðru. Það er í raun fátt sem hægt er að setja út á myndina og fannst mér hún frábær á nánast alla vegu. Ég sá hana fyrst á japönsku með enskum texta og fannst mér talsetningin þar mjög góð. Síðan sá ég hana aftur með enskum texta og fannst hún ekkert síðri þannig. Ég var mjög sáttur með flestar raddirnar í ensku útgáfunni og Christian Bale stendur sig með prýði sem Howl. Þó fannst mér t.d. nokkrar af upprunalegu röddunum koma betur út svo sem eldpúkinn Calcifer, en í ensku útgáfunni er hann talsettur af Billy Crystal. Mér fannst japanska útgáfan af Calcifer alveg frábær en mér fannst Billy Crystal ekki alveg standa undir væntingum fyrir ensku útgáfuna.
Annars er myndin frábærlega vel teiknuð en við öðru er ekki að búast frá Miyazaki. Epíska landslagið, heillandi borgirnar og frábæru karakterarnir láta mann sogast inn í undraheim Miyazaki. Það sem mér finnst svo heillandi við myndir hans er að hann lætur virkilega hugmyndaflugið flakka. Í myndinni er að finna kastala á fjórum fótum, flugvélar með blakandi fjöðurvængi og kringlótt skip. Þó svo að heimurinn sem hann skapar má virðast skrýtinn dregst maður virkilega inn í hann en finnur á sama tíma einhverskonar hliðstæðu í raunveruleikanum líkt og þetta gæti allt verið að gerast í einhverju landi langt í fjarska.
Annað sem einkennir myndir Miyazaki er frábær tónlist en hún er samin af Joe Hishaishi sem semur alla tónlist fyrir myndirnar hans. Tónlistin er mjög mikilvæg í myndinni til þess að gefa henni þessa fantasíu fílingu sem hún hefur og finnst mér tónlistin stuðla að mörgu leyti að því hversu heillaður ég var af myndinni.

Hér er smá bútur þar sem má heyra aðal lag myndarinnar:


Howl's Moving Castle er frábær mynd sem ég mæli eindregið með, ekki bara fyrir þá sem hafa horft mikið á anime myndir. Hún er góð í nánast alla staði og því frábær skemmtun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Hér er hægt að sjá myndina í fullri lengd: (fremur léleg gæði samt)
How'ls Moving Castle

Hér er svo trailerinn fyrir ensku útgáfuna:

1 comment: