Sunday, February 28, 2010

Spirited Away (2001)


Spirited Away
Spirited Away (j. Sen to Chihiro no kamikakushi) er eitt af meistaraverkum japanska leikstjórans Hayao Miyazaki. Hún fjallar um ungu stúlkuna Chihiro sem er á leiðinni í nýja húsið sitt ásamt foreldrum sínum þegar fjölskyldan villist inn á hvað virðist vera gamall skemmtigarður. Þar freistast foreldrar hennar til þess að fá sér bita af matnum sem stendur til boða í auða skemmtigarðinum. Þegar fer að dimma byrja dularfullir andar að koma fram en þegar Chihiro hleypur til að ná í foreldra sína verður henni ljóst að álög sem sett voru á matinn höfðu breytt þeim báðum í feit svín. Síðan hittir Chihiro piltinn Haku sem lofar að hjálpa henni. Hann lætur hana fá vinnu í nærlíggjandi baðhúsi, en þetta baðhús er sérstaklega ætlað öndum. Síðan lofar hann að hjálpa henni að komast burt frá þessum undraheimi, bjarga foreldrum sínum og komast aftur heim en til þess þarf Chihiro að ganga í gegnum margar þrekraunir.

Spirited Away er eins og áður var sagt leikstýrð af Hayao Miyazaki en hún er frá árinu 2001. Hún varð gríðarlega vinsæl um leið og hún kom út en hún sló öll met í Japan hvað varðar miðasölu og má þar t.d. nefna að hún sló Titanic úr fyrsta sætinu. Auk þess hefur Spirited Away unnið fjöldann allan af verðlaunum en hún hlaut óskarsverðlaun fyrir bestu teiknimynd árið 2002. Hún er enn þann dag í dag eina anime myndin sem hefur hlotið óskarsverðlaun þó svo að margar aðrar af myndum hans hafa verið tilnefndar.

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja þegar ég á að fjalla um myndina en mér finnst hún alveg hreint út sagt frábær í nánast alla staði. Hún mjög vel teiknuð líkt og allar myndir Miyazaki en í Spirited Away lætur hann virkilega hugmyndaflugið flakka og afurðin af því er mikilfenglegur og töfrandi heimur fullur af hinum ýmsu verum, allt frá illa lyktandi leðjudraugum til talandi froska. Þó svo að þetta gæti hljómað mjög óraunverulegt dregst maður virkilega inn í þennan töfrandi heim og líður eins og maður sé einn af öndunum sem koma í baðhúsið til þess að hreinsa sál sína.
Tónlistin í myndinni er frábær og gefur henni þennan mikilvæga ævintýralega blæ sem gerir hana svo töfrandi. Hún er samin af Joe Hishaishi en hann semur jafnramt tónlistina fyrir flestar myndir Miyazaki.
Hér sýnir Joe Hishaishi snilld sína og spilar lagið One Summer's Day úr myndinni:


Ég hef reyndar bara séð hana með ensku tali en ég sé fram á að horfa á hana aftur innan skamms og ætla ég þá að prófa hana með upprunalega japanska talinu. Enska talsetningin fannst mér vera mjög góð og alveg til fyrirmyndar þar sem nánast allar persónurnar fá trúverðugar raddir þó svo að ekki sé mikið um fræga leikara sem tala inn á hana.

Spirited Away er hiklaust ein af bestu myndum sem ég hef séð
lengi og varð ég það hrifin af henni að hún á jafnvel heima á topplista yfir uppáhaldsmyndir mínar. Þetta er einmitt svona mynd sem skilur mikið eftir sig og ég hugsaði um hana í marga daga eftir að ég sá hana fyrst. Það var því algjör synd að ég hefði ekki séð hana fyrr en núna fyrir stuttu og mæli ég hiklaust með að allir horfði á þessa frábæru mynd. Hún á án efa eftir að draga ykkur líka inn í töfraheiminn sem Hayao Miyazaki skapaði og hún á ekki eftir að sleppa takinu léttilega.

Hér er hægt að sjá myndina í fullri lengd(léleg gæði):
Spirited Away

Hér er trailerinn að myndinni:

1 comment: