Thursday, April 15, 2010

The Bucket List (2007)


The Bucket List
The Bucket List er mynd frá árinu 2007 og fjallar um tvo eldri menn sem báðir greinast með krabbamein og fá að vita að þeir hafa aðeins fáeina mánuði eða vikur eftir. Milljónamæringurinn Edward Cole (Nicholson) fær þá hugmynd að þeir skuli leggja af stað í ferðalag og upplifa alla þá hluti sem þeir hafa viljað gera alla sína ævi. Hinn maðurinn, Carter Chambers (Freeman), er hikandi í fyrstu en ákveður síðan að hann hefur engu að tapa og þeir leggja af stað í ferð til að uppfylla allar þær óskir sem þeir hafa skrifað niður á lista sem þeir kalla The Bucket List.

The Bucket List er virkilega góð og falleg mynd og þó hún hafi kanski ekki fengið neitt rosa mikla athygli þá er eitthvað við hana sem höfðar virkilega til mín. Leikurinn í henni er hreint út sagt frábær en þeir Jack Nicholson og Morgan Freeman eru tveir af mínum uppáhalds leikurum og finnst mér þeir virkilega frábærir saman. Jack Nicholson leikur milljónamæringin Edward Cole sem hefur gert það gott með fyrirtæki sínu sem rekur einkaspítala og hann á m.a. spítalann sem þeir tveir dvelja á. Morgan Freeman leikur hins vegar svartan bifvélavirkja sem fórnaði öllu fyrir fjölskyldu sína og fór að vinna ungur til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Carter Chambers sem Freeman leikur er hins vegar gríðarlega klár og elskulegur eiginmaður en Edward Cole er hins vegar algjör andstæða við hann og er snobbaður milljónamæringur sem þykir ekki vænt um neinn. Við fyrstu sýn virðist sem þeir tveir eiga ekki mikið sameiginlegt en eftir að hafa umgengst hvorn annan í nokkurn tíma fer að skapast mikil vinátta meðal þeirra. Morgan Freeman er einnig sögumaður í myndinni og segir söguna í raun frá sínu sjónarhorni og hvernig hann kynntist þessum merkilega kalli sem Edward Cole er.
Ég veit ekki alveg hvaða hlutur það er sem heillar mig svo við þessa mynd en mér finnst hún alltaf jafn skemmtileg í hvert skipti sem ég horfi á hana. Það er eitthvað við það hvernig sagan er sögð sem virkilega nær til mín og finnst mér hún vera ein af mínum uppáhalds myndum. Karakterarnir í henni eru eitthvað svo heillandi og söguþráðurinn á sama tíma svo góður. Tónlistin er líka mjög góð og skapar hún einmitt rétta stemmningu fyrir svona mynd. Þegar tveimur af helstu leikurum seinustu ára er skellt saman í mynd sem byggist að mestu upp af góðum samtölum og vel sagðri sögu þá er afurðin virkilega skemmtileg og falleg mynd. Ég mæli því hiklaust með The Bucket List fyrir alla þá sem vilja horfa á góða sögu og frábæra leikara sýna allar sínar bestu hliðar.

Hér er síðan trailerinn:

1 comment: