Thursday, April 15, 2010

The Blind Side (2009)


The Blind Side
The Blind Side er mynd frá árinu 2009 sem fjallar um sögu Michael Oher sem átti mjög erfiðan uppvöxt þar sem mamma hans var eiturlyfjafíkill og hann færðist á milli fósturheimila. Eftir að hafa fengið inngöngu í menntaskóla komst hann í kynni við Leigh Ann Tuohy og fjölskyldu hennar sem tóku hann að sér og leyfðu honum að vera hjá sér. Myndin segir í raun frá sambandi þeirra Michaels og Tuohy fjölskyldunnar og hvernig líf þeirra beggja breyttist til hins betra. Eftir mikla vinnu og erfiði fór líf Michaels að breytast og endaði hann að lokum sem leikmaður Baltimore Ravens í NFL deildinni í amerískum fótbolta.

The Blind Side er falleg mynd sem er byggð á sannri sögu. Ákveðið var að gera mynd í kjölfar samnefndar bókar sem kom út árið 2009 og er skrifuð af Michael Lewis. Handritið að myndinni var skrifað af John Lee Hancock sem leikstýrði henni líka. Sagan af Michael Oher er mjög einstök og þar sem myndin er byggð á raunverulegri ævi hans fær hún ákveðna dýpt og er ekki einhver íþróttasaga sem er skrifuð af handritshöfundum sem hafa horft of mikið á íþróttir og þannig fengið hugmynd að handriti. Mér finnst hún gríðarlega vel skrifuð og segir sögu hans á mjög góðan hátt þar sem maður finnur virkilega til með honum á köflum. Þó svo að handritið er ekki að öllu leyti skrifað eins og gerðist í raun og veru þá finnst mér það ekkert koma að sök í myndinni. Kanski fremur ólíklegt að vellauðug suðurríkjafjölskylda skyldi ákveða að bjóða stórum svörtum strák inn á heimili sitt þegar þau sjá hann labba einan úti í rigningunni. Ég hef reyndar séð viðtal við alvöru fjölskylduna og þau tóku hann ekki inn til sín fyrstu nóttina eins og gerist í myndinni, heldur skutluðu þau honum á strætóstöð svo hann gæti komist heim fljótar. Svona smáatriði er oft breytt þegar verið að yfirfæra sannar sögur á afþreyingarform og finnst mér það ekkert gera myndina verri.

Hér er stutt mynd um söguna sem myndin er byggð á og viðtöl við Michael og Tuohy fjölskylduna:




Leikurinn í myndinni er hreint út sagt frábær. Sandra Bullock sýnir hér afbragðsleik og þó ég hafi ekki verið mikill aðdáandi hennar áður en ég sá The Blind Side finnst mér ég bera meiri virðingu fyrir hana sem leikkonu eftir frammistöðu hennar í myndinni. Strákurinn sem leikur Michael Oher er líka mjög góður. Hann heitir Quinton Aaron og hafði fyrir myndina nánast ekki leikið í neinu en skilar frábærri frammistöðu í myndinni. Restin af Tuohy fjölskyldunni er líka mjög vel leikinn en kansi eini leikarinn sem mér fannst ekki standa fyrir sínu var þjálfari hans sem mér fannst frekar slakur. Sandra Bullock hlaut líka óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni og er það fyrsti óskarinn sem hún hlýtur og án efa verðskuldaður. Myndin var líka tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta mynd.
Mér fannst myndin í heild sinni mjög góð og vel heppnuð. Sagan er kanski soldið klisjukennd á köflum en samt mjög vel sögð. Í lok myndarinnar fær maður líka að sjá Michael Oher og Tuohy fjölskylduna í raunveruleikanum og finnst mér það mjög flott. Góður leikur, falleg saga og vel gerð mynd gerir The Blind Side að afbragðsafþreyingarefni fyrir alla. Mæli ég því hiklaust með henni.

Hér er síðan trailerinn:

1 comment: