Monday, April 12, 2010

Band of Brothers (2001)

Band of Brothers
Band of Brothers er þáttaröð sem gerð var af Tom Hanks og Steven Spielberg árið 2001 og fjallar um hóp bandarískra fallhlífahermanna í seinni heimstyrjöldinni. Í þáttaröðinni fáum við að fylgja þeim frá herþjálfun og för þeirra í gegnum stríðið allt frá innrásinni í Normandy til Arnarhreiðri Hitlers í Austurríki.
Þáttaröðin er í tíu hlutum en hún var gerð í kjölfar myndarinnar Saving Private Ryan frá árinu 1998. Þar byrjaði samstarf þeirra Tom Hanks og Steven Spielberg og þóttist það takast það vel að þeir ákváðu að vinna aftur saman og varð afurðin Band of Brothers. Band of Brothers líkist Saving Private Ryan að mörgu leiti en þó margt sem skilur myndirnar að. Í Saving Private Ryan fær maður að fylgja litlum flokki hermanna sem fara í herför til að bjarga einum hermanni og gæti söguþráðurinn þótt fremur ólíklegur ef litið er á sögulegar heimildir en það er ekki tilfellið í Band of Brothers. Þar fylgir maður ekki litlum hópi hermanna heldur fær maður að kynnast heilum herflokk af hermönnum þar sem hver maður hefur sína sögu að segja. Mér finnst fyrikomulagið á Band of Brothers henta mun betur til að segja sögu þessara hermanna því maður fær virkilega að kynnast hverjum hermanni fyrir sig og þar sem maður fær að fylgja þeim í gegnum næstumþví 10 klukkutíma af efni finnst manni að maður þekki þá frekar vel í endann. Handritið var skrifað í kjölfar viðtala við hermennina úr herflokknum sem lifðu af stríðið og byrjar hver þáttur á stuttum bútum úr þessum viðtölum. Mér finnst það mjög flott fyrirkomulag og þegar líður á seríuna fer maður að átti sig á hverjir þetta eru í viðtölunum og hvaða persónur í þáttunum þeir eiga að svara til. Þetta gefur þáttunum ákveðna dýpt svo manni líður ekki bara eins og maður sé að fylgjast með einhverju Hollywood handriti heldur líður manni meira eins og maður sé að heyra sögu þessara hermanna í raun. Þrátt fyrir það er auðvitað meirihlutinn af handritinu hreinn uppspuni til að auka á skemmtanagildi þáttana en mér finnst samt þáttaröðin segja sögu þessara hermanna vel. Ég hef líka séð aukaefnið þar sem öll viðtölin eru í fullri lengd og er margt af því sem kemur fram í þáttunum byggt hreinlega á sögum þessara manna. Lokaþátturinn er líka frábær þar sem maður fær að sjá hvað hver og einn af hermönnunum fór að gera að stríði loknu og síðan skipt yfir í viðtölin við mennina þar sem maður fær að sjá þá í raunveruleikanum. Herflokkurinn Easy Company úr 101 Fallhlífahersveitinni í bandaríska hernum var talin ein fremsta hersveitin sem bandaríski herinn hafði upp á að bjóða. Þeir voru nánast alltaf í fremstu víglínu og unnu m.a. það afrek að ná Arnarhreiðri Hitlers í Austurríki. Band of Brothers sýnir hvaða þrekraunir þessir menn fóru í gegnum og þeir spiluðu aðalhlutverk í mörgum af mikilvægustu orustum stríðsins í Evrópu.
Myndatakan og umgjörðin í þáttunum er til fyrirmyndar en þeir eru að mestu teknir upp í gríðarstóru myndveri í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það skapa þeir rétta stemmningu fyrir hvern stað fyrir sig, en herferð Easy Company fór með þá á marga mismunandi staði víðs vegar um Evrópu. Þættirnir sem gerast í Bastogne, skogi sem þá var hluti af Belgíu, eru teknir upp í risastóru flugvélaskýli og settu þeir m.a. heimsmet í notkun á gervisnjó og sýnir það m.a. að engu var sparað við gerð þáttanna. Allt gervi og allar tæknibrellur eru mjög vel gerðar þó svo að sumar tölvubrellurnar þykja fremur stirðar nú á dögum þá voru þær til fyrirmyndar á sínum tíma.
Leikurinn í þáttunum er að mínu mati frábær en maður fær að kynnast heilum aragrúa af mismunandi karakterum í gegnum gang þáttaraðarinnar og finnst mér þeir nánast allir standa fyrir sínu. Flestir af leikurunum voru fremur óþekktir á sínum tíma og eru í raun enn því ég man ekki eftir að hafa séð marga þeirra leika í einhverju öðru, allavega svo gott sem ég man. Damian Lewis sem leikur Richard Winters og er eitt af aðalhlutverkunum hef ég só séð í myndinni Dreamcatcher og þáttunum Life. Auk þess lék David Schimmer lítið hlutverk. Leikstjórar þáttanna eru mismunandi nánast í hverjum einasta þætti en Tom Hanks tók það að sér að leikstýra einum þættinum og fannst mér hann einn af þeim bestu.

Band of Brothers er án efa ein af mínum uppáhalds þáttaröðum og er í raun 10 klukkutíma löng mynd sem sleppir aldrei tökunum. Í lok hvers þáttar langar manni að halda áfram og horfa á næsta þátt og finnst mér eiginlega 10 klukkutímar vera nánast of stuttur tími fyrir svo frábært afþreyingarefni. Mæli hiklaust með Band of Brothers fyrir alla en fyrir þá sem hafa áhuga á WWII þá er þetta sannkölluð perla sem má ekki láta fram hjá sér fara.

Hér er síðan trailerinn að þáttunum:

2 comments:

  1. Flott færsla. 8 stig.

    Ég hef lengi ætlað að sjá þessa, en aldrei látið verða af því. Þú lætur þetta hljóma mjög vel. Mér skilst að þættirnir Pacific sem nú eru í sjónvarpinu ytra séu í sama dúr, en kannski ekki alveg jafn góðir. Svo hef ég líka heyrt að Generation Kill séu með bestu sjónvarpsþáttum síðari ára, en þeir fjalla um Íraksstríðið.

    ReplyDelete
  2. Já mæli eindregið með því að þú kíkir á þá. Hef einmitt verið að fylgjast með Pacific en mér finnst þér þó töluvert síðri en BoB, allavega enn sem komið er. Einhvernveginn mun erfiðara að skapa sömu stemmningu í þéttum frumskogum kyrrahafseyjanna en engu að síður mjög áhugavert efni. Ætla að skoða þessa Generation Kill, væri frábært að finna sér aðra þáttaröð til að fylgjast með svona fyrir sumarið.

    ReplyDelete