Shutter Island
Shutter Island er nýjasta mynd Martin Scorsese en hún fjallar um bandaríska lögreglumanninn Teddy Daniels (Di Caprio) sem er fengin til að rannsaka brotthvarf eins fanga úr geðsjúkrafangelsinu Ashcliffe sem staðsett er á Shutter eyju nálægt Boston. Hann hefur reynt að komast á eyjunni vegna persónulegra ástæðna og er að leita að manni sem hann heldur að hafi drepið konu sína. Eftir að hafa verið fastur á eyjunni í nokkurn tíma vegna óveðurs fer Teddy að efast um að koma hans til eyjunnar hafi verið hrein tilviljun. Hann fer að halda að læknarnir sem stjórna geðsjúkrahúsinu (m.a. Ben Kingsley) hafi viljað fá hann þangað til þess að gera tilraunir á honum. Mikil ringulreið er á eyjunni vegna óveðursins en allt bendir til þess að eitthvað sé galið og að Teddy er ekki óhultur. Hann fer því að efast um allt sem honum hafi verið sagt og hættir að treysta á minningar sínar, félaga og hugsar jafnvel um það hvort hann hafi misst vitið.
Mér fannst Shutter Island mjög góð mynd. Hún er prýdd fjöldann allan af góðum leikurum og ber þar hæst að nefna Leonardo Di Caprio sem stendur sig með eindæmum sem lögreglumaðurinn Teddy Daniels. Aðrir leikarar eru líka frábærir og man ég ekki eftir neinum leikara sem skilaði ekki góðri frammistöðu í myndinni. Ben Kingsley er að vanda frábær en hann leikur yfirlæknirinn á spítalanum, Dr. Cawley. Leikmyndin er líka mjög flott en fangelsi sem staðsett er á lítilli eyju sem er full af geðsjúklingum skapar rétta stemmningu fyrir spennumynd af þessari gerð. Margar senur í myndinni héldu manni virkilega á tánnum og var hún því fínasta spennumynd. Handritið að myndinni er byggt á skáldsögu Dennis Lehane en mér finnst handritið mjög gott og því ljóst að Laeta Kalogridis sem skrifaði handrit myndarinnar hafi staðið sig vel í þeirri vinnu.
Í heildina litið fannst mér Shutter Island vera frábær skemmtun með mjög skemmtilegum twist í endanum sem fékk mann til að líta allt öðrum augum á allt sem maður hefði verið að horfa á seinustu tvo tímana. Ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast þegar ég fór á hana en ég hafði heyrt að hún væri mjög skrýtin og sérstök og er það óneitanlega tilfellið. Shutter Island er mjög spes á köflum þar sem Teddy tekst á við það sem er veruleiki og það sem hann er að ímynda sér. Samt finnst mér þetta ekki verða of mikið og ruglandi heldur þvert á móti finnst mér það bara fleyta áfram söguþræði myndarinnar því stór þáttur í atburðarásinni er þegar Teddy berst við sinn eigin huga og hverju hann getur trúað og ekki trúað. En Shutter Island er fínasta skemmtun og mæli ég með henni fyrir þá sem fíla góðar spennumyndir.
Hér er síðan trailerinn:
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
5 stig.
ReplyDelete