Saturday, October 31, 2009

Jóhannes (2009)


Jóhannes (2009)

Jóhannes er mynd sem fjallar um maninn listamannin/myndmenntakennarann Jóhannes (Laddi) sem ákveður að hjálpa ungri stúlku(Unnur Birna) sem er föst í rigningu vegna þess að bíllinn hennar bilar. Þessi ákvörðun Jóhannesar hrindir af stað atburðarás sem á eftir að gera honum lífið leitt og lendir hann í hinum ýmsu ævintýrum þennan afdrivaríka dag.

Myndin er leikstýrð af Þorsteini Gunnari Bjarnasyni en hún er jafnframt fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd. Mér finnst Jóhannes bara vera ágætis skemmtun. Mér finnst hún ekkert frábær en hún er alls ekkert léleg. Hún er satt að segja ein af bestu íslensku myndunum sem ég hef séð í langan tíma, þó svo að það sé ekkert afrek þar sem þær hafa ekki verið upp á marga fiska. Mér fannst hún skila sínu sem íslensk grínmynd og mér finnst Laddi bara ágætur í hlutverki sínu sem Jóhannes. Það er gaman að sjá hversu fjölhæfur leikari hann er og sýnir hann það svo sannarlega í þessari mynd. Annars finnst mér leikurinn í þessari mynd ekkert rosalegur og Unnur Birna ætti að mínu mati bara að halda sér í Miss World bransanum. Mér fannst heldur ekki aðal illmennið sem leikið er af Stefáni Halli Stefánssyni standa alveg fyrir sínu. Mér fannst hann leika þetta ágætlega en fannst persónan einhvernveginn ekkert ógnvekjandi. Annars finnst mér nokkuð gott flæði í myndinni og hún skilar ágætis skemmtun. Klippingin er góð og myndatakan bara mjög fín miðað við íslenska mynd. Sem dæmi má nefna að eltingarleikurinn á hringbrautinni var mjög vel tekinn, þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Við í kvikmyndafræði fengum síðan tækifæri til að tala við leikstjóra myndarinnar og spurja spurninga og fannst mér hann koma mjög vel fyrir. Hann svaraði öllum spurningum sem við lögðum undir hann og satt að segja breyttist álit mitt á myndinni til hins betra eftir að hafa fengið að ræða við hann. Hann útskýrði hvaða pælingar voru að baki við tökur á myndinni og fékk ég þannig örlítið aðra sín á sumum atriðum sem höfðu farið í taugarnar á mér áður.

Jóhannes er nú ekki beint þannig mynd sem á að skilja mikið eftir sig og gerir hún það ekki en ég mæli með henni fyrir þá sem vilja sjá góða íslenska gamanmynd því hún er fínasta skemmtun.

Hér er siðan trailerinn:

Metallica: Some Kind of Monster (2004)


Metallica: Some Kind of Monster (2004)
Ég hef nánast eingöngu bloggað um kvikmyndir á þessu bloggi en ákvað að skrifa smá færslu um heimildamynd sem ég sá nú á dögunum. Hún heitir Metallica: Some Kind of Monster og er heimildamynd um þungarokkshljómsveitina Metallica og upptöku þeirra á plötunni St. Anger. Þeir ákváðu að láta myndatökumenn fylgja þeim í gegnum ferlið sem fylgir því að búa til plötu. Myndatökumennirnir fylgdu sveitinni frá árunum 2001-2003 en þeir átti í miklum deilum sín á milli á þessum árum. Þeir glímdu við mörg vandamál eins og samskiptaörðuleikar, ofneyslu, einn meðlimur sveitarinnar hætti og margt benti til þess að öll hljómsveitin myndi leggja upp laupanna. Þeir réðu því til sín sálfræðing sem átti að hjálpa þeim að komast aftur á rétta braut og hjálpa þeim að klára plötuna. Heimildamyndin segir ekki einungis frá þeirri hlið sem beinist að tónlistinni heldur fær áhorfandinn líka að kynnast hljómsveitarmeðlinum mjög vel.


Mér fannst þessi mynd mjög skemmtileg og fræðandi. Metallica hefur alla tíð verið ein af uppáhalds hljómsveitum mínum þó svo að ég hlusti ekki mikið á þungarokk nú til dags. Þeir eru óneitanlega eitt af stærstu nöfnum hljómsveitarsögunnar og var því mjög fróðlegt að fá að gægjast smá inn í heim þeirra. Eftir að hafa verið á toppi tilverunnar og verið dýrkaðir af milljónum manna í meira en 20 ár er augljóst að þeir eru orðnir mjög úrvinda og eiga skiljanlega við mörg andleg vandamál að stríða. Í myndinni fær maður að fylgjast með samræðum þeirra við sálfræðinginn og maður fær þannig mjög ítarlega sýn á lífi þeirra og hvað þeir eru að hugsa. Auk þess fær maður að fylgjast með því hvernig upptaka á svona stórri plötu virkar og margt annað. Þeir þurfa að finna sér nýjan bassaleikara því fyrrum bassaleikari sveitarinnar Jason Newsted hætti og fær maður einnig að fylgja þeim í gegnum ferlið að finna nýjan hljómsveitarmeðlim. Það sem mér þótti best við þessa mynd var hversu náið maður fékk að kynnast hljómsveitarmeðlimunum. Eftir að hafa séð myndina fannst mér ég þekkja þá betur en ég hafði nokkurn tímann hugsað mér áður en ég sá hana. Það er eitthvað við hana sem er bara svo hrátt. Maður fær virkilega að skyggjast inn í líf þeirra sem gerir hana að mjög góðri greiningu á einni af stærstu hljómsveitum allra tíma. Ég mæli því eindregið með henni sem heimildamynd, en fyrir þá sem hafa áhuga á Metallica þá er þetta klárlega skylduáhorf.

Fyrir áhugasama eru hér nokkur myndbönd frá Metallica sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér:

Nothing Else Matters:


One:


Enter Sandman:

Rounders


Rounders (1998)

Þegar ég var að búa til topplista yfir mínar uppáhalds myndir fyrir mánuði síðan þurfti ég að velja nokkrar myndir sem voru í uppáhaldi hjá mér. Það tók mig langan tíma að ákveða hvaða myndir skyldu verða fyrir valinu og varð mér ljóst að ég væri eflaust að gleyma fullt af myndum. Þegar ég síðan fór yfir listann aftur sá ég að hefði gleymt einni af mínum lang uppáhalds myndum. Ég ákvað því að skrifa sér blogg um þessa mynd en það er myndin Rounders frá árinu 1998.

Rounders fjallar um hinn unga og upprennandi pókerspilara Mike McDermott (Matt Damon) sem lendir í því að tapa aleigu sinni í póker. Hann er einnig lögfræðinemi og eftir tapið ákveður hann að hætta að stunda fjárhættuspil og einbeita sér að náminu. Hann lofar líka kærustu sinni að hætta. Hann finnur sér aðra vinnu sem bílstjóri til þess að reyna að afla sér tekna en þegar æskuvinur hans og fyrrum pókerfélagi Worm (Edward Norton) sleppur úr fangelsi dregst hann aftur inn í heim fjárhættuspila. Kærastan hans fer frá honum og hann er í hættu að falla úr námi. Eftir það reynir hann að koma lífi sínu aftur á rétta leið, og notar til þess sína einstöku hæfileika í pókerspilun.

Rounders er leikstýrð af John Dahl en hann hefur ekki látið mikið af sér kveða sem kvikmyndaleikstjóri eftir gerð myndarinnar. Hann gerði The Great Raid (2005) en hún hefur fengið misgóða dóma en auk þess hefur hann leikstýrt sjónvarpsþáttum á borð við Californication, Battlestar Gallactica og nú síðast Dexter. Í aðalhlutverkum eru þeir Matt Damon og Edward Norton en auk þeirra eru margir aðrir frábærir leikarar á borð við John Malkovich, sem er einstaklega eftirminnilegur sem illmennið, John Landau, sem alltaf stendur fyrir sínu og svo síðast en ekki síst John Turturro, sem er einn af mínum uppáhalds leikurum. Vinur minn kynnti mér fyrir Rounders og áður en ég sá hana hafði ég nánast aldrei spilað póker áður. Hins vegar eftir að hafa séð hana fékk ég gríðarlegan áhuga á póker og finnst mér Rounders vera tvímælalaust besta pókermynd sem gerð hefur verið. Nánast allar myndir sem sína frá póker sýna það á svo rangan hátt og ég verð oft bara reiður þegar ég sé þannig atriði. Þar dettur mér helst í hug Bond-myndinni Casino Royale sem þú getur séð hér:

Rounders er hins vegar alls ekki þannig. Þar er mjög raunverulega greint frá pókerspilun og geta örugglega flestir aðrir pókerspilarar verið sammála mér um það.

Rounders er ein af uppáhalds myndum mínum og mæli ég því eindregið með henni fyrir alla, ekki bara þá sem hafa áhuga á póker, heldur alla þá sem hafa áhuga á góðum kvikmyndum.

Hér er síðan trailerinn:

Wednesday, October 28, 2009

Good Will Hunting (Handrit)


Good Will Hunting (1997)

Mér var gefið það verkefni að horfa á mynd, sem ég hafði helst ekki séð áður, og hafa handritið að myndinni til hliðsjónar. Síðan áttum við að lesa u.þ.b. 10 bls. af handritinu og síðan horfa á um 10 mínútur af myndinni og þannig sjá betur sambandið milli handrits og myndar. Good Will Hunting kom strax upp í hugann þar sem mig hefði lengi langað að sjá hana. Auk þess er handritið á henni nokkuð sérstakt, en það er skrifað af þeim Matt Damon og Ben Affleck. Þeir fengu Óskarsverðalaun fyrir handritið auk þess sem þeir leika báðir stór hlutverk í myndinni. Þeir skrifuðu handritið saman og var upprunalega hugmyndin að myndin ætti að vera spennumynd en ákváðu síðar að breyta handritinu og einblína meira á samband Will Hunters og sálfræðingi hans en einnig var samband Wills og stúlkunnar látið hafa meiri þunga.

Hér er linkur á handritið fyrir áhugasama: http://sfy.ru/?script=good_will_hunting

Í fyrsta lagi fannst mér þessi mynd alveg frábær. Mér fannst hún skemmtileg, vönduð, gríðarlega vel leikin og með betri myndum sem ég hef séð í langan tíma. Myndin er leikstýrð af Gus Van Sant en hann hefur gert myndir á borð við Drugstore Cowboy (1989) og nú nýlega Milk (2008).
Myndin fjallar um Will Hunting (Damon) sem vinnur sem ræstingarmaður hjá MIT-háskólanum í Boston en hefur snilligáfu í stærðfræði. Hann er stærðfræðiséní sem getur leyst flókin stærðfræðidæmi án þess að þurfa að hafa neitt fyrir því. Þrátt fyrir þennan magnaða hæfileika
hefur hann nýtt sér hann. Hann er munaðarleysingji sem hefur átt mjög erfiða æsku og alist upp við mikla fátækt og harðindi. Þegar stærðfræðikennari við MIT kemst að hæfileika Wills vill hann gera hann að stærðfræðingi og láta hann vinna með sér en Will hefur engan áhuga á að lifa þannig lífi. Þegar Will lendir í slagsmálum og fær dæmdan á sig fangelsisdóm hjálpar stærðfræðikennarinn honum úr haldi lögreglunnar með því skilyrði að hann vinni með honum og að hann fari til sálfræðings(Williams). Saman reyna þeir að koma lífi Wills á rétta leið.

Good Will Hunting er hreint út sagt frábær mynd, með afbragðsleikurum í alla staði. Auk þeirra Matt Damon og Robin Williams eru leikarar á borð við Stellan Skarsgård(kennarinn) og Minnie Driver(kærastan) sem bæði sýna afbragðsleik. Þó svo að mér þykir Ben Affleck ekki vera neinn stórleikari stendur hann sig ágætlega í sinu litla hlutverki sem besti vinur Wills og á auðvitað mikinn heiður skilinn fyrir vinnu sína að handriti myndarinnar. Myndatakan er góð en myndin gerist nær eingöngu í Boston og úthverfum þess. Tónlist myndarinnar er líka fín og mörg góð lög sem mynda góða stemmningu.

Það voru mörg eftirminnileg atriði í henni og átti ég mér eitt sem var í sérstöku uppáhaldi. Það var atriðið í garðinum sem þú getur séð hér:



Handritið er að mínu mati með þeim betri sem ég hef kynnst. Þá sérstaklega vegna þess að það er skrifað af tveimur ungum leikurum sem ekki höfðu mikla reynslu við handritaskrif. Það var margt sem vakti áhuga minn þegar ég las handritið áður en ég sá myndina og mörg atriði sem ég hafði séð skýrt fyrir mér í huganum. Mér finnst Gus Van Sant síðan vinna mjög vel úr handritinu og mörg atriði sem voru mjög lík því sem ég hafði séð fyrir mér. Strax í fyrstu senunni kom þó í ljós að handritinu hafði verið breytt fyrir myndina því upphafsatriðið var allt annað en átti að vera í upprunalega handritinu. Síðan voru nokkur atriði stytt og samtalsbútar teknir út, en mér fannst það alls ekki skemma fyrir myndinni. Myndin hófst í staðinn á atriði sem átti að koma eftir upprunalega byrjunaratriðinu og fannst mér það virka bara nokkuð vel. Mér fannst líka lýsingarnar á persónunum mjög góðar í handritinu og var ég með nokkuð skýra mynd yfir flesta karakterana í myndinni fyrirfram. Valið á leikurunum var síðan gríðarlega gott og finnst mér flestir leikararnir lifa upp til væntinga minna fyrir útlit.
Þar sem þetta verkefni snérist um handritaskrif fannst mér við hæfi að sýna myndbrot frá því þegar þeir félagar Matt Damon og Ben Affleck fengu Óskarsverðlaunin fyrir handritið.
Hér er linkur á myndbrotið: http://www.youtube.com/watch?v=d8RIS5GJqAg&feature=related


Eftir að hafa séð þessa frábæru mynd mæli ég eindregið með því að fólk sjái hana því hún hefur allt það sem góð mynd þarf, gott flæði, frábær samtöl, góðan húmor og síðan er hún afskaplega vel leikinn. Hún skildi mikið eftir sig og er þetta meistaraverk því eitthvað sem enginn má láta fram hjá sér fara.

Hér er síðan trailerinn:

Chinatown


Chinatown (1974)

Chinatown er mynd eftir leikstjórann Roman Polanski með þau Jack Nicholson og Faye Dunaway í aðalhlutverkum. Hún fjallar um einkaspæjarann J.J. Gittes (Nicholson) sem er fenginn til þess að rannsaka framhjáld hjá ríkri konu, en leiðist síðan út á nýjar brautir þar sem hann finnur vísbendingar til þess að morð hafi verið framin og finnur strax að allt er ekki með réttu.

Mér fannst margt mjög gott og skemmtilegt við Chinatown. Mér fannst myndatakan alveg frábær. Roman nær mörgum virkilega flottum skotum líkt og þegar maður sér hvað Gittes er að horfa á í gegnum myndavélina með því að sjá speglun af fólkinu í linsunni ( þegar hann var uppi á þaki að spæja um Hollis Mulwray) og svo fannst mér líka öll bílaskotin flott. Leikararnir eru nottla bara hreint út sagt frábærir og finnst mér Jack Nicholson skara þar sérstaklega fram úr. Hann er kornungur í þessari mynd og er greinilegt að hann átti eftir að ná langt í kvikmyndabransanum eftir þessa frammistöðu. Mér fannst handritið ágætt, ekkert rosalegt, en mér fannst flæðið í myndinni ekki alveg nógu gott og mér fannst hún á köflum verða frekar atburðalítil og ekki mikið að gerast sem gerði það verkum að ég missti svolítið áhugan.
Hins vegar er Chinatown mjög vöndum og flott mynd með mörgum frábærum leikurum og náttúrulega snilldarlegum leikstjóra. Ég mæli því hiklaust með að fólk sjái þessa mynd því hún var fínasta skemmtun.

Hér er svo trailerinn:

http://www.youtube.com/watch?v=3aifeXlnoqY

Wednesday, September 30, 2009

Nord (2009)


Nord (2009)
Nord er norsk gamanmynd sem fjallar um þunglynda skíðagarpinn Jomar og tilraun hans til þess að losna úr því niðurdrepandi ástandi sem hann er fastur í . Þegar hann fréttir að hann gæti verið orðinn faðir leggur hann af stað í ferð norður í leit að barninu sínu. Á leið sinni lendir hann í hinum ýmsu uppákomum og hittir skrautlega karaktera.

Mér fannst Nord vera mjög góð og á köflum virkilega fyndin. Leikarinn í aðalhlutverkinu, Anders Baasmo Christiansen, stendur sig með prýði og túlkar hinn þunglynda skíðavörð á mjög skemmtilegan hátt. Margir af þeim persónum sem hann hittir á leið sinni eru einnig mjög vel leiknar. Þá sérstaklega ungi strákurinn á túrtappafylleríinu og fannst mér fundur þeirra tveggja vera alveg frábær.
Handritið er mjög gott og finnst mér samtölin flæða vel. Myndin hefur marga frábæra karaktera sem hver og einn hafa eitthvað sérstakt upp á að bjóða. Annað sem heillaði mig mikið við þessa mynd var landslagið og voru mörg gríðarlega flott skot af náttúru Noregs. Mörg þeirra minntu mig á Into the Wild (2007) sem mér finnst frábær mynd. Tónlistin spilaði einnig stóran þátt í hversu vel heppnuð þessi atriði voru og fannst mér tónlistin í myndinni yfir höfuð vera mjög góð.

Nord var sýnd á RIFF-kvikmyndahátíðinni og var hún ein af uppáhalds myndunum mínum á hátíðinni. Ég mæli því eindregið með henni og fannst mér hún fínasta skemmtun.

Trailer:

Dead Snow (2009)

Dead Snow (2009)
Dead Snow eða Död Snö eins og hún heitir á móðurmálinu er norsk splattermynd sem fjallar um hóp læknanema sem fara saman í frí upp í kofa í norsku fjöllunum. Þar lenda þau í greipunum á glorsoltnum, þýskum nasista-uppvakningum sem augljóslega gera þeim lífið leitt.

Þegar ég skoðaði dagskránna fyrir RIFF kvikmyndahátíðina vakti Dead Snow strax áhuga minn. Vinur minn hefði séð hana áður og mælt eindregið með henni. Ég vissi ekki alveg við hverju ég mátti búast þegar ég gekk inn á norska zombie-splattermynd og var því ekkert með allt of háar væntingar. Þegar ég heyrði fyrst söguþráðinn velti ég því fyrir mér hvort þetta væri svipuð mynd og Reykjavik Whale Watching Massacre, þar sem leikstjórinn var að taka sín fyrstu skref í splattermyndagerð, handritið einfaldlega lélegt og leikararnir vægast sagt ekki upp á marga fiska.

Sem betur fer var Dead Snow svo gríðarlega mikið betri að það er nánast hlægilegt. Mér fannst Dead Snow frábær. Tæknibrellurnar voru mjög vel heppnaðar og gáfu myndinni ákveðinn karakter. Það voru fullt af mjög góðum hugmyndum sem ég hafði aldrei séð áður og voru frábærglega vel útfærðar. Tæknibrellurnar fóru langt fram úr mínum væntingum og er ánægjulegt að sjá hversu vel norræn mynd gat sýnt fram á svo flottar brellur. Búningarnir og gervið sem uppvakningarnir voru með var einnig vel heppnað þar sem ég gæti vel trúað að nasista-uppvakningur lyti einhvern vegin svona út:

Mér fannst leikararnir bara í meðallagi. Enginn var frábær en engin sýndi heldur fram á lélegan leik. Mér fannst mjög skemmtilegt hvernig hver persóna hafði sinn eigin persónuleika og maður gat þannig haft samúð með þeim þegar nasista-uppvakningarnir slitu þá í tætlur. Allavegana mun meiri samúð en með fólkinu í RWWM.

Handritið var mjög gott. Mikið af fyndnum bröndurum sem virkilega kítluðu hláturtaugarnar og þó svo að ég efaðist um söguþráðinn fannst mér handritið skila skemmtilegri atburðarás.

Dead Snow var mjög góð skemmtun og mæli ég eindregið með henni fyrir þá sem fíla norskt nasista-splatter.

Hér er svo trailerinn fyrir myndina:

Sunday, September 6, 2009

Topplisti

Topplisti

Þegar mér var gefið það verkefni að búa til topplista yfir uppáhalds myndirnar mínar hélt ég í fyrstu að það væri ekkert mál, en þegar ég fór að pæla aðeins betur í þessu varð það mun erfiðara en ég hélt fyrst. Þar sem ég hef séð svo margar góðar myndir í gegnum tíðini er þessi listi alls ekki tæmandi og ég er eflaust að gleyma fullt af myndum sem ættu rétt á að vera nefndar. Hér er stutt umfjöllun um nokkrar af þeim myndum sem hafa haft mest áhrif á mig og ég tel vera í miklu uppáhaldi.

Myndirnar eru ekki í neinni ákveðinni röð.


Saving Private Ryan (1998)
Saving Private Ryan hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér alveg síðan ég var lítill. Hún var fyrsta bannaða myndin sem ég sá og risti hún því djúpt í minninguna. Eftir að hafa séð hana í bío keypti ég mér hana á spólu og er viss um að ég hafi séð hana svona u.þ.b. 50 sinnum eða jafnvel oftar. Tom Hanks er frábær en það á líka við um hina og á Matt Damon einnig hrós skilið fyrir leik sinn sem fallhlífahermaðurinn Ryan.
Saving Private Ryan er án efa ein besta stríðsmynd sem gerð hefur verið að mínu mati og mun hún alltaf vera í miklu uppáhaldi hjá mér.


Gladiator (2000)
Gladiator er gríðarlega flott mynd á alla vegu. Leikstjóri hennar er Ridley Scott og hefur hann gert ótal góðra mynda líkt og Alien, Blade Runner, Hannibal og American Gangster. Að mínu mati er Gladiator besta myndin hans og hef ég alltaf haft augastað á henni. Russel Crowe er hreint út sagt frábær og illmenni myndarinn Joaquin Pheonix sýnir einnig hversu hæfileikaríkur leikari hann er. Hvort sem það eru epískir bardagar eða frábærlega leikin samtöl gerir Ridley Scott Gladiator að einni af mínum uppáhalds myndum og á hún því heima á þessum lista.



Superbad (2007)
Superbad er án efa ein fyndnasta mynd sem ég hef séð og veit ég ekki hversu oft ég hef skellihlegið yfir sömu atriðunum aftur og aftur. Það er furðulegt hvernig ég get ekki fengið leið af þessari mynd. Þetta var ein af fyrstu myndum Seth Rogen og eiginlega myndin sem kom honum á kortið í kvikmyndabransanum. Allir karakterarnir eru frábærir á sinn hátt og má þar sérstaklega nefna þá tvo vini Seth og Evan sem leiknir eru af Jonah Hill og Michael Cera en eftir leik sinn í Superbad hafa þeir báðir leikið í fjölmörgum öðrum góðum myndum. Leikstjóri myndarinn er fremur óþekktur og heitir hann Greg Mottola. Hann hefur ekki leikstýrt mörgum þekktum myndum en seinasta myndin hans var Adventureland sem mér fannst fremur slök frammistaða miðað við Superbad. Superbad á hiklaust heima á topplistanum mínum fyrir þær sakir að hún er frábær gamanmynd og mun örugglega lengi vera fyndnasta mynd sem ég hef séð.


Fight Club (1999)
Alveg síðan ég sá Fight Club í fyrsta skipti hefur hún verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Því miður sá ég hana fyrst fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan og er það allt of seint því ég var búinn að fara á mis á alveg hreint út sagt frábærri mynd, klárlega ein af betri myndum sem gerðar hafa verið. Fight Club er ótrulega svöl og vel gerð mynd með frábæru handriti og ennþá betri leikurum. Að mínu mati fer Brad Pitt með eina af sínum bestu frammistöðum þegar hann túlkar hinn eitursvala Tyler Durden. Ég hef einnig alla tíð haft mikinn áhuga á Edward Norton og hans myndum og er Fight Club klárlega hans besta mynd hingað til. Fight Club er frábær mynd í alla vegu og á því heima ofarlega á topplista mínum, ef ekki í fyrsta sæti.


American History X (1998)
Þegar ég sá American History X í fyrsta sinn varð ég strax dolfallin af vel sagðri sögu leikstjórans og enn og aftur frábærum leik. Edward Norton í hlutverki sínu sem nasistinn Derek Vinyard er örugglega einn af þeim persónum sem hefur haft sem djúpstæðust áhrif á mig eftir að hafa séð mynd. Túlkun Nortons á honum er sláandi og eru mörg eftirminnileg atriði í þessari frábæru mynd, þá sérstaklega þegar Norton sparkar andlitið á einum manninum í gangstéttarkantinn. Ég elska myndir sem hafa þannig áhrif á mann að maður hugsar um þær langt eftir að maður horfði á þær og var American History X ein af þeim myndum. Þessi frábæra mynd leikstjórans Tony Kaye fær því pláss á topplistanum mínum.

Ég ákvað að skrifa aðeins lengri umfjöllun um þessar 5 myndir en þær eru margar fleiri sem gætu komist á þennan lista og eru þessar 5 ekki beint þær myndir sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér heldur fengu þær bara aðeins meiri umfjöllun en hinar.

Aðrar myndir sem einnig myndu eiga heima á þessum lista eru t.d.
-Pulp Fiction (1994)
-Twelve Monkeys (1995)
-Reservoir Dogs (1992)
-The Lord of the Rings (allar 3)
-Donny Darko (2001)
-The Shawshank Redemption (1994)
-Schindler's List (1993)
-Inglorious Basterds (2009)

Því miður hef ég ekki kynnt mér nógu mikið eldri myndir og vonast ég til að breyta því. Næsti topplisti verður vonandi með fleiri eldri myndum og er ég mjög bjartsýnn á að áhugi minn á eldri myndum verði meiri eftir að hafa séð myndir eins og The General og Citizen Kane sem mér líkaði mjög vel við.

Ég er eflaust að gleyma fullt af góðum myndum en þessi listi verður að duga í bili.