Wednesday, October 28, 2009
Good Will Hunting (Handrit)
Good Will Hunting (1997)
Mér var gefið það verkefni að horfa á mynd, sem ég hafði helst ekki séð áður, og hafa handritið að myndinni til hliðsjónar. Síðan áttum við að lesa u.þ.b. 10 bls. af handritinu og síðan horfa á um 10 mínútur af myndinni og þannig sjá betur sambandið milli handrits og myndar. Good Will Hunting kom strax upp í hugann þar sem mig hefði lengi langað að sjá hana. Auk þess er handritið á henni nokkuð sérstakt, en það er skrifað af þeim Matt Damon og Ben Affleck. Þeir fengu Óskarsverðalaun fyrir handritið auk þess sem þeir leika báðir stór hlutverk í myndinni. Þeir skrifuðu handritið saman og var upprunalega hugmyndin að myndin ætti að vera spennumynd en ákváðu síðar að breyta handritinu og einblína meira á samband Will Hunters og sálfræðingi hans en einnig var samband Wills og stúlkunnar látið hafa meiri þunga.
Hér er linkur á handritið fyrir áhugasama: http://sfy.ru/?script=good_will_hunting
Í fyrsta lagi fannst mér þessi mynd alveg frábær. Mér fannst hún skemmtileg, vönduð, gríðarlega vel leikin og með betri myndum sem ég hef séð í langan tíma. Myndin er leikstýrð af Gus Van Sant en hann hefur gert myndir á borð við Drugstore Cowboy (1989) og nú nýlega Milk (2008).
Myndin fjallar um Will Hunting (Damon) sem vinnur sem ræstingarmaður hjá MIT-háskólanum í Boston en hefur snilligáfu í stærðfræði. Hann er stærðfræðiséní sem getur leyst flókin stærðfræðidæmi án þess að þurfa að hafa neitt fyrir því. Þrátt fyrir þennan magnaða hæfileika
hefur hann nýtt sér hann. Hann er munaðarleysingji sem hefur átt mjög erfiða æsku og alist upp við mikla fátækt og harðindi. Þegar stærðfræðikennari við MIT kemst að hæfileika Wills vill hann gera hann að stærðfræðingi og láta hann vinna með sér en Will hefur engan áhuga á að lifa þannig lífi. Þegar Will lendir í slagsmálum og fær dæmdan á sig fangelsisdóm hjálpar stærðfræðikennarinn honum úr haldi lögreglunnar með því skilyrði að hann vinni með honum og að hann fari til sálfræðings(Williams). Saman reyna þeir að koma lífi Wills á rétta leið.
Good Will Hunting er hreint út sagt frábær mynd, með afbragðsleikurum í alla staði. Auk þeirra Matt Damon og Robin Williams eru leikarar á borð við Stellan Skarsgård(kennarinn) og Minnie Driver(kærastan) sem bæði sýna afbragðsleik. Þó svo að mér þykir Ben Affleck ekki vera neinn stórleikari stendur hann sig ágætlega í sinu litla hlutverki sem besti vinur Wills og á auðvitað mikinn heiður skilinn fyrir vinnu sína að handriti myndarinnar. Myndatakan er góð en myndin gerist nær eingöngu í Boston og úthverfum þess. Tónlist myndarinnar er líka fín og mörg góð lög sem mynda góða stemmningu.
Það voru mörg eftirminnileg atriði í henni og átti ég mér eitt sem var í sérstöku uppáhaldi. Það var atriðið í garðinum sem þú getur séð hér:
Handritið er að mínu mati með þeim betri sem ég hef kynnst. Þá sérstaklega vegna þess að það er skrifað af tveimur ungum leikurum sem ekki höfðu mikla reynslu við handritaskrif. Það var margt sem vakti áhuga minn þegar ég las handritið áður en ég sá myndina og mörg atriði sem ég hafði séð skýrt fyrir mér í huganum. Mér finnst Gus Van Sant síðan vinna mjög vel úr handritinu og mörg atriði sem voru mjög lík því sem ég hafði séð fyrir mér. Strax í fyrstu senunni kom þó í ljós að handritinu hafði verið breytt fyrir myndina því upphafsatriðið var allt annað en átti að vera í upprunalega handritinu. Síðan voru nokkur atriði stytt og samtalsbútar teknir út, en mér fannst það alls ekki skemma fyrir myndinni. Myndin hófst í staðinn á atriði sem átti að koma eftir upprunalega byrjunaratriðinu og fannst mér það virka bara nokkuð vel. Mér fannst líka lýsingarnar á persónunum mjög góðar í handritinu og var ég með nokkuð skýra mynd yfir flesta karakterana í myndinni fyrirfram. Valið á leikurunum var síðan gríðarlega gott og finnst mér flestir leikararnir lifa upp til væntinga minna fyrir útlit.
Þar sem þetta verkefni snérist um handritaskrif fannst mér við hæfi að sýna myndbrot frá því þegar þeir félagar Matt Damon og Ben Affleck fengu Óskarsverðlaunin fyrir handritið.
Hér er linkur á myndbrotið: http://www.youtube.com/watch?v=d8RIS5GJqAg&feature=related
Eftir að hafa séð þessa frábæru mynd mæli ég eindregið með því að fólk sjái hana því hún hefur allt það sem góð mynd þarf, gott flæði, frábær samtöl, góðan húmor og síðan er hún afskaplega vel leikinn. Hún skildi mikið eftir sig og er þetta meistaraverk því eitthvað sem enginn má láta fram hjá sér fara.
Hér er síðan trailerinn:
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Mjög góð færsla. 8 stig.
ReplyDeleteEinhvers staðar heyrði ég því fleygt að handritið hafi farið í gegnum fjölda endurskrifana og handritalækninga áður en það var gert að bíómynd, en ég veit svo sem ekki hvort það er satt. Það er samt einhvern veginn auðveldara að trúa því, en því að Ben Affleck hafi komið að gerð snilldarhandrits... Kannski bara fordómar.