Saturday, October 31, 2009

Metallica: Some Kind of Monster (2004)


Metallica: Some Kind of Monster (2004)
Ég hef nánast eingöngu bloggað um kvikmyndir á þessu bloggi en ákvað að skrifa smá færslu um heimildamynd sem ég sá nú á dögunum. Hún heitir Metallica: Some Kind of Monster og er heimildamynd um þungarokkshljómsveitina Metallica og upptöku þeirra á plötunni St. Anger. Þeir ákváðu að láta myndatökumenn fylgja þeim í gegnum ferlið sem fylgir því að búa til plötu. Myndatökumennirnir fylgdu sveitinni frá árunum 2001-2003 en þeir átti í miklum deilum sín á milli á þessum árum. Þeir glímdu við mörg vandamál eins og samskiptaörðuleikar, ofneyslu, einn meðlimur sveitarinnar hætti og margt benti til þess að öll hljómsveitin myndi leggja upp laupanna. Þeir réðu því til sín sálfræðing sem átti að hjálpa þeim að komast aftur á rétta braut og hjálpa þeim að klára plötuna. Heimildamyndin segir ekki einungis frá þeirri hlið sem beinist að tónlistinni heldur fær áhorfandinn líka að kynnast hljómsveitarmeðlinum mjög vel.


Mér fannst þessi mynd mjög skemmtileg og fræðandi. Metallica hefur alla tíð verið ein af uppáhalds hljómsveitum mínum þó svo að ég hlusti ekki mikið á þungarokk nú til dags. Þeir eru óneitanlega eitt af stærstu nöfnum hljómsveitarsögunnar og var því mjög fróðlegt að fá að gægjast smá inn í heim þeirra. Eftir að hafa verið á toppi tilverunnar og verið dýrkaðir af milljónum manna í meira en 20 ár er augljóst að þeir eru orðnir mjög úrvinda og eiga skiljanlega við mörg andleg vandamál að stríða. Í myndinni fær maður að fylgjast með samræðum þeirra við sálfræðinginn og maður fær þannig mjög ítarlega sýn á lífi þeirra og hvað þeir eru að hugsa. Auk þess fær maður að fylgjast með því hvernig upptaka á svona stórri plötu virkar og margt annað. Þeir þurfa að finna sér nýjan bassaleikara því fyrrum bassaleikari sveitarinnar Jason Newsted hætti og fær maður einnig að fylgja þeim í gegnum ferlið að finna nýjan hljómsveitarmeðlim. Það sem mér þótti best við þessa mynd var hversu náið maður fékk að kynnast hljómsveitarmeðlimunum. Eftir að hafa séð myndina fannst mér ég þekkja þá betur en ég hafði nokkurn tímann hugsað mér áður en ég sá hana. Það er eitthvað við hana sem er bara svo hrátt. Maður fær virkilega að skyggjast inn í líf þeirra sem gerir hana að mjög góðri greiningu á einni af stærstu hljómsveitum allra tíma. Ég mæli því eindregið með henni sem heimildamynd, en fyrir þá sem hafa áhuga á Metallica þá er þetta klárlega skylduáhorf.

Fyrir áhugasama eru hér nokkur myndbönd frá Metallica sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér:

Nothing Else Matters:


One:


Enter Sandman:

No comments:

Post a Comment