Sunday, February 28, 2010
Spirited Away (2001)
Spirited Away
Spirited Away (j. Sen to Chihiro no kamikakushi) er eitt af meistaraverkum japanska leikstjórans Hayao Miyazaki. Hún fjallar um ungu stúlkuna Chihiro sem er á leiðinni í nýja húsið sitt ásamt foreldrum sínum þegar fjölskyldan villist inn á hvað virðist vera gamall skemmtigarður. Þar freistast foreldrar hennar til þess að fá sér bita af matnum sem stendur til boða í auða skemmtigarðinum. Þegar fer að dimma byrja dularfullir andar að koma fram en þegar Chihiro hleypur til að ná í foreldra sína verður henni ljóst að álög sem sett voru á matinn höfðu breytt þeim báðum í feit svín. Síðan hittir Chihiro piltinn Haku sem lofar að hjálpa henni. Hann lætur hana fá vinnu í nærlíggjandi baðhúsi, en þetta baðhús er sérstaklega ætlað öndum. Síðan lofar hann að hjálpa henni að komast burt frá þessum undraheimi, bjarga foreldrum sínum og komast aftur heim en til þess þarf Chihiro að ganga í gegnum margar þrekraunir.
Spirited Away er eins og áður var sagt leikstýrð af Hayao Miyazaki en hún er frá árinu 2001. Hún varð gríðarlega vinsæl um leið og hún kom út en hún sló öll met í Japan hvað varðar miðasölu og má þar t.d. nefna að hún sló Titanic úr fyrsta sætinu. Auk þess hefur Spirited Away unnið fjöldann allan af verðlaunum en hún hlaut óskarsverðlaun fyrir bestu teiknimynd árið 2002. Hún er enn þann dag í dag eina anime myndin sem hefur hlotið óskarsverðlaun þó svo að margar aðrar af myndum hans hafa verið tilnefndar.
Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja þegar ég á að fjalla um myndina en mér finnst hún alveg hreint út sagt frábær í nánast alla staði. Hún mjög vel teiknuð líkt og allar myndir Miyazaki en í Spirited Away lætur hann virkilega hugmyndaflugið flakka og afurðin af því er mikilfenglegur og töfrandi heimur fullur af hinum ýmsu verum, allt frá illa lyktandi leðjudraugum til talandi froska. Þó svo að þetta gæti hljómað mjög óraunverulegt dregst maður virkilega inn í þennan töfrandi heim og líður eins og maður sé einn af öndunum sem koma í baðhúsið til þess að hreinsa sál sína.
Tónlistin í myndinni er frábær og gefur henni þennan mikilvæga ævintýralega blæ sem gerir hana svo töfrandi. Hún er samin af Joe Hishaishi en hann semur jafnramt tónlistina fyrir flestar myndir Miyazaki.
Hér sýnir Joe Hishaishi snilld sína og spilar lagið One Summer's Day úr myndinni:
Ég hef reyndar bara séð hana með ensku tali en ég sé fram á að horfa á hana aftur innan skamms og ætla ég þá að prófa hana með upprunalega japanska talinu. Enska talsetningin fannst mér vera mjög góð og alveg til fyrirmyndar þar sem nánast allar persónurnar fá trúverðugar raddir þó svo að ekki sé mikið um fræga leikara sem tala inn á hana.
Spirited Away er hiklaust ein af bestu myndum sem ég hef séð
lengi og varð ég það hrifin af henni að hún á jafnvel heima á topplista yfir uppáhaldsmyndir mínar. Þetta er einmitt svona mynd sem skilur mikið eftir sig og ég hugsaði um hana í marga daga eftir að ég sá hana fyrst. Það var því algjör synd að ég hefði ekki séð hana fyrr en núna fyrir stuttu og mæli ég hiklaust með að allir horfði á þessa frábæru mynd. Hún á án efa eftir að draga ykkur líka inn í töfraheiminn sem Hayao Miyazaki skapaði og hún á ekki eftir að sleppa takinu léttilega.
Hér er hægt að sjá myndina í fullri lengd(léleg gæði):
Spirited Away
Hér er trailerinn að myndinni:
Saturday, February 27, 2010
The Final Destination (2009)
The Final Destination
The Final Destinaion er fjórða myndin í Final Destination seríunni og vona ég innirlega að þetta sé líka sú síðasta. Hún fylgir sama söguþráð og allar hinar myndirnar, en það er að aðalpersónan og vinir hans, sem alltaf er kærasta hans og tveir vinir, þar sem vinirnir rífast og hata hvort annað en eru samt bestu vinir kærustuparsins. Síðan sér einn af þeim sýn sem er líkt og draumur þar sem slys á sér stað og þau deyja öll, ásamt fjölda annarra sem er staddur á sama stað. Síðan vaknar sú persóna og fattar að slysið er ekki búið að eiga sér stað og á eftir að gerast aftur en þá platar hann hópinn til að forða sér og þá fylgir hópur annarra með þeim. Síðan á slysið sér stað þar sem þau áttu öll að deyja samkvæmt áætlun "Dauðans". Nokkru seinna byrjar fólkið sem lifði af að deyja á undarlegan hátt, en þá er dauðinn kominn aftur og er að drepa þau öll í þeirri röð sem þau áttu upprunalega að deyja í slysinu. Aðalpersónan fattar þetta og reynir síðan að hindra að fólkið deyji.
The Final Fantasy er eins og ég sagði alveg eins og hinar myndirnar í seríunni og því verður hún afskaplega fyrirsjáanleg. Til þess að bæta gráu ofan í svart þá er heldur aðalpersónan áfram að fá þessa drauma um hvernig fólk á eftir að deyja og því fær maður að sjá hvernig allir eiga eftir að deyja áður en þau lenda í því. Þetta gerir það að verkum að það er ekki einusinni spennandi þegar maður finnur á sér að einhver eigi eftir að deyja, því maður er búinn að sjá hvernig fyrr í myndinni! Því er ekkert sem kemur á óvart og gerir þessa mynd ennþá verri. Auk þess er alveg hræðileg tölvutækni notuð í myndinni sem er líka á mörgum stöðum algjör óþarfi. Myndin var upprunlega gerð í 3D og átti það að gera hana svaka flotta, en öll þrívíddaratriðin í myndinni eru meira eða minna einhverjir hlutir sem skjótast í myndavélina og gera mann í raun bara meiri pirraðan en maður er fyrir. Svo er svaka flott þrívíddaratriði þar sem aðalpersónurnar eru í bío, að horfa á 3D mynd! Þar fær þrívíddin virkilega að njóta sín. Leikararnir í myndinni eru típískir B-mynda leikarar og standa í raun fyrir sínu sem slíkir. Þó finnst mér öryggisvörðurinn vera alveg með verstu leikurum sem ég hef séð lengi og í raun synd að hann hafi ekki verið látinn deyja aðeins fyrr í myndinni.
Þegar ég horfði á The Final Destination vissi ég alveg við hverju ég mátti búast en í rauninni horfði ég á hana í djóki en ég get alveg viðurkennt að ég hló nokkuð mikið þó svo að hún átti alls ekki að vera gamanmynd. Hún er tilvalin fyrir þá sem vilja heyra lélega "one-liner"-a og of mikið af lélegum tölvubrellum en annars er The Final Destination afskaplega léleg mynd.
Trailer:
Thursday, February 25, 2010
Notorious (1946)
Notorious
Ég missti því miður af tímanum þegar við horfðum á Notorious í skólanum en í staðinn gat frænka mín lánað mér myndina og horfði á hana fyrir stuttu.
Notorious er mynd eftir Alfred Hitchcock frá árinu 1946 og gerist að mestu leyti í Rio de Janeiro. Hún fjallar um Aliciu Huberman (Ingrid Bergmand) en faðir hennar, sem var Þjóðverji, hefði unnið í mörg ár sem njósnari fyrir Þjóðverja í Bandaríkjunum. Hann var síðan tekinn fastur og settur í fangelsi þar sem hann framdi sjálfsmorð. Aliciu finnst að faðir hennar hafi svikið land sitt og skammast sín mjög fyrir hann. Þegar síðan maður að nafni Devlin (Cary Grant) biður Aliciu um að njósna um hóp Nasista í Rio De Janeiro, sér Alicia tækifæri til þess að bæta upp fyrir svik föður síns. Í leiðinni verður Alicia ástfangin af Devlin og allt verður mjög flókið.
Notorius var fínasta skemmtun með mörgum eftirminnilegum atriðum. Ingrid Bergman og Cary Grant eru frábær í henni og sýna bæði afbragðsleik. Veit ekki hversu mikið ég get sagt um þessa mynd en mér fannst hún fínasta skemmtun þó svo að hún var örlítið langdregin á köflum en í heildina litið mjög góð mynd. Ein af uppáhalds myndunum mínum eftir Hitchcock.
Hér er smá klippa af einu atriði með þeim Bergman og Grant:
Howl's Moving Castle (2004)
Howl's Moving Castle
Howl's Moving Castle (j. Hauru no Ugoku Shiro) er anime mynd eftir japanska leikstjórann Hayao Miyazaki. Hún fjallar um ungu stúlkuna Sophie sem fær á sig álög frá gamalli norn og breytist þannig í gamla konu. Hún leggur af stað í för til þess að reyna að finna leið til þess að losna undan álögunum en á leiðinni kemst hún í kynni við galdrakarlinn Howl, sem býr í fremur einkennilegum kastala sem getur hreyft sig. Howl hefur það orðspor að taka hjörtu ungra kvenna og hræðist Sophie hann mjög í fyrstu en síðan kemur í ljós að hann einn gæti hjálpað henni að losna undan álögunum.
Howl's Moving Castle var fyrsta myndin eftir Hayao Miyazaki sem ég sá og er óhætt að segja að ég heillaðist strax. Ég hafði ekki séð margar anime myndir áður, sem er í raun mikil synd því ég hef misst af miklu. Áður en ég sá hana hafði ég bara heyrt góða hluti um myndir Miyazaki og Howl's Moving Castle er vafalaust ein af þeim betri, þó svo að hann hafi pungað út einu meistaraverkinu á fætur öðru. Það er í raun fátt sem hægt er að setja út á myndina og fannst mér hún frábær á nánast alla vegu. Ég sá hana fyrst á japönsku með enskum texta og fannst mér talsetningin þar mjög góð. Síðan sá ég hana aftur með enskum texta og fannst hún ekkert síðri þannig. Ég var mjög sáttur með flestar raddirnar í ensku útgáfunni og Christian Bale stendur sig með prýði sem Howl. Þó fannst mér t.d. nokkrar af upprunalegu röddunum koma betur út svo sem eldpúkinn Calcifer, en í ensku útgáfunni er hann talsettur af Billy Crystal. Mér fannst japanska útgáfan af Calcifer alveg frábær en mér fannst Billy Crystal ekki alveg standa undir væntingum fyrir ensku útgáfuna.
Annars er myndin frábærlega vel teiknuð en við öðru er ekki að búast frá Miyazaki. Epíska landslagið, heillandi borgirnar og frábæru karakterarnir láta mann sogast inn í undraheim Miyazaki. Það sem mér finnst svo heillandi við myndir hans er að hann lætur virkilega hugmyndaflugið flakka. Í myndinni er að finna kastala á fjórum fótum, flugvélar með blakandi fjöðurvængi og kringlótt skip. Þó svo að heimurinn sem hann skapar má virðast skrýtinn dregst maður virkilega inn í hann en finnur á sama tíma einhverskonar hliðstæðu í raunveruleikanum líkt og þetta gæti allt verið að gerast í einhverju landi langt í fjarska.
Annað sem einkennir myndir Miyazaki er frábær tónlist en hún er samin af Joe Hishaishi sem semur alla tónlist fyrir myndirnar hans. Tónlistin er mjög mikilvæg í myndinni til þess að gefa henni þessa fantasíu fílingu sem hún hefur og finnst mér tónlistin stuðla að mörgu leyti að því hversu heillaður ég var af myndinni.
Hér er smá bútur þar sem má heyra aðal lag myndarinnar:
Howl's Moving Castle er frábær mynd sem ég mæli eindregið með, ekki bara fyrir þá sem hafa horft mikið á anime myndir. Hún er góð í nánast alla staði og því frábær skemmtun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Hér er hægt að sjá myndina í fullri lengd: (fremur léleg gæði samt)
How'ls Moving Castle
Hér er svo trailerinn fyrir ensku útgáfuna:
Subscribe to:
Posts (Atom)